Fjármagn til rannsókna við háskóla

Fimmtudaginn 12. febrúar 2004, kl. 11:19:41 (4124)

2004-02-12 11:19:41# 130. lþ. 63.4 fundur 353. mál: #A fjármagn til rannsókna við háskóla# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 130. lþ.

[11:19]

Menntamálaráðherra (Þorgerður K. Gunnarsdóttir):

Hæstv. forseti. Ég þakka þessa umræðu og áhuga hv. þm. Katrínar Júlíusdóttur á málinu og brýningu hennar. Ég tel gott að við brýnum hvert annað í þessum mikilvæga málaflokki. Það er alveg rétt að í rannsóknum og vísindum erum við að tala um vaxtarsprota framtíðarinnar. Það er líklegt að í gegnum hann, ekki eingöngu menntunina heldur vísindi og rannsóknir, munum við auka hagvöxt svo um munar fyrir þjóðfélagið þegar fram líða stundir. Ég fagna því að þingmenn sýni svo mikilvægum málaflokki slíkan áhuga.

Ég tel líka jákvætt að sjá þá samkeppni sem við sjáum nú á háskólastiginu, samkeppni sem var ekki sjálfsögð fyrir nokkrum árum. En hún hefur skapast með markvissri pólitískri stefnu um að styrkja beri sjálfstæði háskólanna þannig að fjármagnið flytjist með hverjum nemanda. Það er ekki ríkisvaldsins að ákveða háskólana fyrir námsmennina heldur færist fjármagnið einfaldlega með námsmönnum í þá háskóla sem þeir kjósa að stunda nám við.

Ég lít á viðfangsefni okkar núna og umræðu um rannsóknarfjármagn til sjálfstæðra háskóla sem beinar afleiðingar af þessari miklu samkeppni og um leið fjölbreytni á háskólastiginu. Þetta er um leið viðfangsefni sem við erum að takast á við í ráðuneytinu með því að senda kennslusamninga til sjálfstæðu háskólanna. Þar eru m.a. rannsóknarkaflar. Við erum ekki að gera hið nákvæmlega sama og við Háskóla Íslands, sem er náttúrlega svona undirstaðan í háskólasamfélagi okkar. En við látum þá fá samninga þar sem eru hrein og klár og skýr rannsóknarákvæði. Það er nauðsynlegt að þessir ágætu háskólar styrki sig í þeirri samkeppni sem þeir koma til með að standa frammi fyrir þegar þeir sækja um fjármagn í samkeppnissjóði varðandi rannsóknarfé.