Rannsóknarsamningur við Háskólann í Reykjavík

Fimmtudaginn 12. febrúar 2004, kl. 11:29:26 (4128)

2004-02-12 11:29:26# 130. lþ. 63.5 fundur 354. mál: #A rannsóknarsamningur við Háskólann í Reykjavík# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi KJúl
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 130. lþ.

[11:29]

Fyrirspyrjandi (Katrín Júlíusdóttir):

Virðulegi forseti. Hæstv. menntmrh. mótmælti því að stefnuleysi ríkti í málaflokknum hvað varðar rannsóknir. Ég vil þá spyrja hana til baka: Er sá óvinafagnaður sem ríkir á milli sjálfstæðu háskólanna annars vegar og Háskóla Íslands hins vegar, sem birst hefur okkur í fjölmiðlum undanfarið, birtingarmynd skýrrar stefnu í menntmrn. varðandi framlög til rannsókna? Það tel ég ekki vera.

Ég kem ekki upp til að vera með einhver leiðindi vegna þess að mér finnst þetta mikilvægur málaflokkur. Ég vil endilega leggja mitt af mörkum við uppbyggingu og stefnumörkun á þessu sviði. Ég vona sannarlega að nýr hæstv. menntmrh. beri gæfu til að taka á þessum málum í eitt skipti fyrir öll og til að leysa deilurnar á milli háskólanna. Þær eru ekki það sem við þurfum. Ég vonast til að háskólarnir geti starfað í bærilegri sátt við sig og samfélagið og viti við áætlanagerð hvaða fjármagni þeir hafi úr að spila og nemendur viti, eins og ég sagði í fyrri ræðu minni, um hvað þeir sækja þegar sótt er um inngöngu í skólana.