Listasafn Samúels Jónssonar

Fimmtudaginn 12. febrúar 2004, kl. 11:38:09 (4133)

2004-02-12 11:38:09# 130. lþ. 63.6 fundur 471. mál: #A listasafn Samúels Jónssonar# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., EKG
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 130. lþ.

[11:38]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Ég fagna því að þessi umræða á sér stað um þessi merkilegu listaverk sem eru á margan hátt alveg einstök. Það fer ekkert á milli mála að mjög mikill vilji er til þess að standa vel að því að varðveita þau. Eins og fram hefur komið af hálfu hæstv. menntmrh. er ríkur skilningur og áhugi á því máli og það er komið á ákveðinn rekspöl.

Hins vegar er ábyrgðin auðvitað ekki síst okkar alþingismanna að tryggja að þessum málum verði lokið með sómasamlegum hætti. Það hefur komið fram að Alþingi hefur verið ákaflega áhugasamt um varðveislu menningarmannvirkja víða úti um land og þarna er auðvitað verk að vinna sem við þurfum að hyggja vel að, þingmenn, þannig að það verði tryggt að nægilegt fjármagn fáist til þessa verkefnis alveg eins og við höfum verið að gera víða um land með mjög góðum árangri. Ég fullyrði að ef ekki væri fyrir frumkvæði Alþingis sjálfs í þessum efnum stæðum við miklu verr að vígi varðandi menningarmannvirki víða úti á landi. Við höfum sjálf mótað fordæmið og við eigum að fylgja því og tryggja að þessum menningarmannvirkjum í Selárdal í Arnarfirði verði bjargað og þeim verði sýndur eðlilegur sómi þannig að fólk geti notið þeirra og haft ánægju af.