Þjóðarleikvangurinn í Laugardal

Fimmtudaginn 12. febrúar 2004, kl. 11:53:42 (4140)

2004-02-12 11:53:42# 130. lþ. 63.8 fundur 493. mál: #A þjóðarleikvangurinn í Laugardal# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi MÁ
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 130. lþ.

[11:53]

Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason):

Forseti. Undanfarin ár hafa Knattspyrnusamband Íslands og Reykjavíkurborg átt farsæla samvinnu um að reka og byggja upp þjóðarleikvanginn í Laugardal, þennan völl sem skipar sérstakan sess í hugum allra íþróttamanna og íþróttaáhugamanna. Hann var aðalkeppnisvöllur og er enn í frjálsíþróttum, sem einkum var áberandi framan af ævi þessa vallar, en einkum hefur hann verið vettvangur mestu viðburða í knattspyrnusögunni allt frá vígslunni 1959, reyndar lékum við fyrsta landsleik á vellinum við Norðmenn tveimur árum fyrr, árið 1957.

Síðustu ár hefur verið uppbygging á vellinum. Það kom ný stúka, austurstúkan, og komast nú 7.000 manns í númeruð sæti. Stæðin til beggja enda eru hins vegar orðin úrelt og í niðurníðslu og það hlýtur að vera stefnt að því að lokum að leggja þau af eins og stæði yfir höfuð á slíkum knattspyrnuvöllum, hvað sem tilfinning manna segir þeim.

Knattspyrnusambandið hefur fengið fé að utan frá alþjóðahreyfingu knattspyrnumanna til að byggja upp völlinn og aðstöðu þar. Menn tala um að stækka gömlu stúkuna í næsta áfanga, bæta aðstöðu í byggingunni neðan stúku að vestanverðu og bæta aðkomu gesta á völlinn. Fé sem Knattspyrnusambandið hefur fengið frá alþjóðahreyfingunni er bundið í tíma og háð mótframlagi hér heima. Reykjavíkurborg er tilbúin með þriðjung og nú vantar aðeins þriðjung frá ríkinu, samkvæmt mínum upplýsingum eru þetta 250--300 millj. kr., ekki endilega reiðufé heldur loforð sem væri hægt að semja um.

Ríkið hefur verið rausnarlegt í framlögum til íþróttamála víða um land og við höfum sérstaklega undanfarið tekið eftir fyrirheitum og efndum Tómasar Inga Olrichs fyrrv. menntmrh. í tengslum við Vetraríþróttamiðstöðina á Akureyri, sem er hið besta mál, og reyndar víðar í þeim héruðum fyrir kosningarnar síðustu. Stuðningur ríkisins við íþróttalíf í höfuðborginni hefur hins vegar verið hverfandi, það er eins og það hafi átt að sjá um sig sjálft, en það er þó sérstakt í þessum efnum. Þar er ekki bara tæpur helmingur landsmanna heldur hefur höfuðborgin tekið á sig skyldu fyrir þjóðina alla. Í Laugardalnum eru sannkölluð þjóðarmannvirki og þar er ekki sístur sá leikvangur í Laugardal sem þjóðin bindur ýmsar minningar við, bæði góðar og síðri, en er sannarlega sameign allrar þjóðarinnar um leið og hann skipar mikinn sess í hugum Reykvíkinga.