Þjóðarleikvangurinn í Laugardal

Fimmtudaginn 12. febrúar 2004, kl. 11:56:52 (4141)

2004-02-12 11:56:52# 130. lþ. 63.8 fundur 493. mál: #A þjóðarleikvangurinn í Laugardal# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 130. lþ.

[11:56]

Menntamálaráðherra (Þorgerður K. Gunnarsdóttir):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Mörður Árnason spyr svo:

,,Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að ríkissjóður taki þátt í kostnaði við stækkun gömlu stúkunnar við þjóðarleikvanginn í Laugardal?``

Í mínum huga er brýnt að hafa verkaskiptingu ríkisins og sveitarfélaga að leiðarljósi þegar ákvörðun um þátttöku ríkisins í verkefnum, sem fyrst og fremst eru skilgreind sem verkefni á vegum sveitarfélaga, er tekin í þessu máli sem og öðrum. Uppbygging íþróttamannvirkja er á ábyrgð sveitarfélaga nema sérstök ákvörðun sé tekin um annað.

Ákvörðun um kostnaðarþátttöku ríkisins í framangreindu íþróttamannvirki mun því hafa fordæmisgildi að því leyti að sóst verður eftir greiðsluþátttöku ríkisins vegna uppbyggingar svonefndra þjóðarleikvanga í öðrum íþróttagreinum.

Reykjavíkurborg hefur þegar óskað eftir þátttöku menntmrn. í uppbyggingu þessa mannvirkis auk sundlaugarinnar í Laugardal. Vitað er að Knattspyrnusamband Íslands, KSÍ, hefur fengið skilyrt loforð frá Alþjóðaknattspyrnusambandinu um allt að 300 millj. kr. framlag til uppbyggingar á keppnisaðstöðu í knattspyrnu. Skilyrði fyrir þessum fjárstuðningi er að framkvæmdir hefjist í síðasta lagi á þessu ári og hefur formaður KSÍ lýst því yfir í fjölmiðlum að framkvæmdir muni hefjast í maí. Því er ljóst að uppbyggingin mun eiga sér stað hvort sem ríkið kemur að henni með fjárstuðningi eður ei.

Þá vil ég geta þess að viðræðunefnd ríkisins og Reykjavíkurborgar, sem nýlega var skipuð, hefur það verkefni að skila áliti um þátttöku ríkisins í uppbyggingu þjóðarleikvanga. Í umboði nefndarinnar kemur fram að henni er ætlað að kynna sér hugmyndir Reykjavíkurborgar um þjóðarleikvanga og kostnaðarþátttöku ríkisins í uppbyggingu þeirra.

Ég tel mikilvægt að áður en tekin verður afstaða til hugmynda Reykjavíkurborgar þurfi að leggja mat á þörfina á þjóðarleikvöngunum í öðrum íþróttagreinum og mögulegan kostnað ríkisins af þeim. Nefndin hefur ekki lokið störfum og vil ég kynna mér niðurstöður hennar áður en ég tek frekari afstöðu til málsins auk þess sem ég hef í hyggju að ræða við íþróttanefnd ríkisins um hugmyndir um uppbyggingu þjóðarleikvanga á Íslandi og hugsanlegan fjárstuðning ríkisins í slíkum stofnkostnaði.

Ég vil hins vegar rétt í lokin, virðulegi forseti, segja að mér fannst ég skynja það á spurningu og tali hv. þm. Marðar Árnasonar áðan að það er eitt og annað sem við getum sameinast um, m.a. áhuga okkar á íþróttum. Það væri óskandi einhvern tíma í framtíðinni að við gætum skundað saman á völlinn og hvatt áfram Ísland og unnið síðan, hvort sem það væru Frakkar eða Þjóðverjar.