Viðurkenning starfsnáms á Norðurlöndum

Fimmtudaginn 12. febrúar 2004, kl. 12:11:44 (4147)

2004-02-12 12:11:44# 130. lþ. 63.9 fundur 494. mál: #A viðurkenning starfsnáms á Norðurlöndum# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi MÁ
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 130. lþ.

[12:11]

Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason):

Forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. hlýlega fyrir þessi svör. Ég held að við eigum að binda vonir við norrænt samstarf á þessu sviði. Við erum klárlega langt á eftir öðrum þjóðum í Norðurálfu í þessum efnum. Samstarf okkar við norræna vini getur verulega hjálpað okkur og hugsanlega nýst okkur beint með nemendaskiptum eða a.m.k. með sókn okkar nemenda í starfsnám þangað, á sama hátt og gerst hefur á háskólastiginu. Sú alþjóðasamvinna í nemendasamskiptum á háskólastigi sem komið hefur upp á síðustu árum hefur átt þátt í að efla háskóla okkar og auka víðsýni okkar í menntamálum.

Ég óttast hins vegar að hæstv. menntmrh. geri sér ekki nægilega vel grein fyrir því vandamáli sem við stöndum frammi fyrir í starfs- og verkmenntum. Ég hefði gjarnan viljað að hún hefði getað verið viðstödd umræðu þá um þessi mál sem fram fór um daginn. Ég skil vel að hún geti ekki elt uppi einhverjar umræður út og suður, hún hefur miklum störfum að gegna sem ráðherra og við sjáum sem betur fer á hverjum degi í blöðunum að hún er að opna ýmislegt, klippa og annað, væntanlega að hugsa og starfa líka. Í þeirri umræðu voru taldar fram tölur, m.a. unnar af starfsfólki í menntmrn., um hversu aftarlega við erum á merinni í þessum málum og hve miklu máli það skiptir samfélagið og hve erfitt það er fyrir samfélagið, að ekki sé talað um fólkið sem samfélagið er búið til úr. Vandræði í menntamálum, uppgjöf í skólagöngu, brottfall, ónóg tækifæri við hæfi og ónógt tillit til þeirrar fjölgreindar sem við erum öll gædd verður að persónulegum harmleik og ekki aðeins að hagfræðilegri mínustölu.