Lífeyrisskuldbindingar Ríkisútvarpsins

Fimmtudaginn 12. febrúar 2004, kl. 12:15:20 (4149)

2004-02-12 12:15:20# 130. lþ. 63.10 fundur 496. mál: #A lífeyrisskuldbindingar Ríkisútvarpsins# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi MÁ
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 130. lþ.

[12:15]

Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason):

Forseti. Hinn fjölmenni þingheimur tekur væntanlega eftir því að samskipti okkar hæstv. menntmrh. batna með hverri umræðunni sem við tökum og nú er komið að því að ég held að við förum að fallast í faðma því að ég ætlast beinlínis til að hún svari þessu erindi mjög jákvætt. Málið hefur verið tekið upp tvisvar á þinginu núna að minni tilhlutan. Þetta er í þriðja sinn. Ég ætla ekki að þreyta þingheim á að rekja það lengi.

Ríkisútvarpið er B-hluta stofnun. Það lenti eins og aðrar stofnanir ríkisins í að fá á sig lífeyrispakkann 1993--1994. Það er ekki á fjárlögum og getur þess vegna ekki framvísað þeim vanda á ríkissjóð eins og önnur fyrirtæki. Eftirstöðvar þess víxils sem sleginn var vegna lífeyrisskuldbindinganna eru 2,6 milljarðar nokkurn veginn, eða voru síðast þegar þetta var rætt, og árlegar greiðslur eru um 200 millj. kr. Þetta er þungur baggi á Ríkisútvarpinu sem rekið er, eins og við vitum, með halla sem er ákveðinn á Alþingi en þarf að sækja fé sitt annars vegar í afnotagjöldin sem menntmrh. m.a. ræður og hins vegar í auglýsingar og kostun á markaði sem margir kvarta undan og ég tel raunar, þó að það sé annað mál, ekki hollt fyrir Ríkisútvarpið að gera í of miklum mæli.

Hæstv. fjmrh. Geir Haarde vísaði á menntmrh. þegar ég spurðist fyrir um þetta í fjárlagaumræðunni. Menntmrh. svaraði 15. október, fyrir fjórum mánuðum, fyrirspurn um þetta mál og sagði það vera í athugun, eins og reyndar lífeyrismál annarra stofnana, m.a. Sinfóníuhljómsveitarinnar, og sagði í lok máls síns í þeirri umræðu, með leyfi forseta:

,,Það er von mín að þessari yfirferð ráðuneytisins verði lokið bráðlega og að þar finnist farsælleg lausn á þessu stóra vandamáli Ríkisútvarpsins sem nauðsynlegt er að taka á eins og tekið hefur verið á lífeyrisskuldbindingum Þjóðleikhússins, og vonir standa til að hægt verði að ljúka farsællega málefnum Sinfóníuhljómsveitar Íslands.``

Nú er einfaldlega spurt fjórum mánuðum síðar: Hvað líður þessum fyrirheitum?