Lífeyrisskuldbindingar Ríkisútvarpsins

Fimmtudaginn 12. febrúar 2004, kl. 12:21:26 (4151)

2004-02-12 12:21:26# 130. lþ. 63.10 fundur 496. mál: #A lífeyrisskuldbindingar Ríkisútvarpsins# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi MÁ
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 130. lþ.

[12:21]

Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason):

Forseti. Eins og ég var fullur væntingar í ræðustól áðan þá er ég nú fullur vonbrigða því að hæstv. menntmrh. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir las hér nokkurn veginn sömu ræðu, sennilega samda af sama starfsmanni menntmrn., og Tómas Ingi Olrich menntmrh. fór með 15. október sl. Í málinu hefur sem sé ekkert gerst, það hefur ekkert leyst. Það er engar nýjar upplýsingar að fá í þessu máli og svo er að sjá að ekki standi til að leysa sérstaklega þetta sérstæða vandamál sem Ríkisútvarpið nánast eitt af öllum stofnunum stendur frammi fyrir vegna sérstöðu sinnar, heldur á að halda áfram að hafa það í pakka með öllum öðrum vandamálum Ríkisútvarpsins sem hafa reyndar margvíslegar ástæður. Ein sú veigamesta er sú íþyngjandi kalda hönd sem Sjálfstfl. heldur yfir þessum fjölmiðli, sem hann notar meira og minna til að bæta sinn hlut í samfélaginu, koma sínu fólki fyrir og reyna að passa upp á að fátt sé sagt og fátt gert án þess að hann viti af og hafi stjórn á. Að kaupa efni af vildarvinum sínum og láta eins og ekki séu til aðrir framleiðendur er mikið vandamál og auðvitað þarf að ráða bót á því og að því eiga auðvitað að koma allir flokkar á þingi og allt samfélagið, allt menningarsamfélagið. En við þurfum ekki núna að sinni, hélt ég, að ræða það heldur var það þetta sérstaka vandamál vegna ráðstafana sem ekki voru nægilega hugsaðar árið 1993 sem hægt væri að leysa þannig að það sé frá. Af hverju á að láta það dankast inni í öllum hinum vandamálunum, inni í fjárhagspakkanum stóra?

Hér var rifjuð upp vinna sem fór fram í fjmrn. og menntmrn. átti hlut að fyrir tveimur árum, hygg ég. Þar var einmitt lagt til að þetta vandamál yrði leyst sérstaklega í tækninefndinni, þriggja manna, sem þá var skipuð og skilaði áliti sem tveir ráðherrar áttu þá að halda áfram með, hæstv. núv. heilbrrh. og þáv. menntmrh. sem nú er dómsmrh., og ekkert hefur sést frá þeirri tveggja manna nefnd síðan.