Lífeyrisskuldbindingar Ríkisútvarpsins

Fimmtudaginn 12. febrúar 2004, kl. 12:23:51 (4152)

2004-02-12 12:23:51# 130. lþ. 63.10 fundur 496. mál: #A lífeyrisskuldbindingar Ríkisútvarpsins# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 130. lþ.

[12:23]

Menntamálaráðherra (Þorgerður K. Gunnarsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég ítreka svar mitt að ég mun halda áfram að vinna að því að reyna að leysa þessar erfiðu lífeyrisskuldbindingar sem Ríkisútvarpið stendur frammi fyrir og m.a. að reyna að vísa til þess að ég tel það farsælast fyrir Ríkisútvarpið að við reynum að líta á mál þess heildstætt.

En það fór ekki svo, herra forseti, að hægt væri að fara fram á umræðu hér í þetta langan tíma án þess að fram kæmi eitthvert hnútukast af hálfu hv. þm. Marðar Árnasonar í garð starfsmanna Ríkisútvarpsins. Og ég vil leyfa mér fyrir hönd þeirra og sem yfirmaður þessarar stofnunar og menntmrh. að mótmæla þessum dylgjum, síendurteknu dylgjum í garð starfsmanna Ríkisútvarpsins sem allir eru að vinna gott starf. Það er alveg óþolandi, herra forseti, þegar komið er hingað upp í pontu á hinu háa Alþingi, að enn og aftur er verið að draga fram rógburð og dylgjur í garð þess ágæta starfsfólks sem þar vinnur og reynir að vinna vinnu sína af heiðarleika og einlægni með það að markmiði að standa fyrir öflugri dagskrárgerð og sjálfstæðri fréttaöflun. Og ég trúi því ekki að hv. þm. Mörður Árnason, sem lengi hefur verið ráðsmaður í útvarpsráði, skuli enn og aftur draga fram þessa allt að því ömurlegu umræðu inn á hið háa Alþingi.