Viðbygging við Heilbrigðisstofnunina á Selfossi

Fimmtudaginn 12. febrúar 2004, kl. 12:26:48 (4154)

2004-02-12 12:26:48# 130. lþ. 63.11 fundur 145. mál: #A viðbygging við Heilbrigðisstofnunina á Selfossi# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 130. lþ.

[12:26]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Á þskj. 145 er fyrirspurn sem ég beindi til hæstv. heilbrrh. og lagði fram á haustdögum um það hvenær megi vænta þess að framkvæmdir við stækkun húsnæðis Heilbrigðisstofnunar Suðurlands hefjist. Í nokkur ár hefur þess verið beðið að farið yrði í þessar framkvæmdir við stækkun húsnæðis við sjúkrahúsið á Selfossi og ekki að ástæðulausu því að þessari nýbyggingu er ætlað að taka við þeirri þjónustu sem nú er í Ljósheimum, langlegudeild fyrir aldraða sjúklinga. Húsnæði og aðbúnaður sjúklinga og starfsfólks á Ljósheimum er algerlega ófullnægjandi og hefur verið það í nokkur ár. Margítrekaðar athugasemdir hafa komið frá Heilbrigðiseftirliti Suðurlands og segja sína sögu, nú síðast athugasemdir í 36 liðum, reyndar fleiri ef teknar eru almennar athugasemdir sem eru í 8 liðum í bréfi sem heilbrigðiseftirlitið sendi frá sér í desember og áður hafa verið gerðar athugasemdir 2001, 2002 og í janúar 2003.

Í þeim athugasemdum sem nú eru lagðar fram af hálfu Heilbrigðiseftirlits Suðurlands er verið að ítreka að stærstum hluta allar þær athugasemdir sem komu fram á árunum 2001, 2002 og 2003 vegna þess að ekki hefur fengist fjármagn til að fara í neinar endurbætur. Í svari við fyrirspurn minni 13. mars 2002 þegar ég spurði hæstv. ráðherra að því hvenær ætti að fara í þessar byggingarframkvæmdir sem þá höfðu verið í undirbúningi frá 1999 sagði hæstv. ráðherra, með leyfi forseta:

,,Samningar við hönnuði til að ljúka fullnaðarhönnun standa yfir og mun þeim væntanlega ljúka á allra næstu dögum. Þegar hönnun þessara bygginga er lokið og verkið tilbúið til útboðs verður það boðið út á hefðbundinn hátt og ættu framkvæmdir að geta hafist innan árs eða í ársbyrjun 2003. Áformað er að bjóða út 1. áfanga verksins eftir nk. áramót [þ.e. áramótin 2002/2003] og ákveðið að 1. áfangi verði að steypa upp allt húsið og ganga frá því að fullu að utan og innréttingu 2. hæðar.``

Virðulegi forseti. Fyrir síðustu kosningar var okkur þingmönnum, þá Suðurlandskjördæmis, kynnt af þingmönnum Framsfl. að nú yrði farið í þessar framkvæmdir. Fyrsta skóflustungan yrði tekin jafnvel fyrir kosningar, í síðasta lagi í júní eða júlí. Frá þeim tíma höfum við fengið þær upplýsingar að frétta væri að vænta í næstu viku og það hefur verið sagt nokkuð reglubundið allan tímann. Því spyr ég hæstv. ráðherra: Hvenær á að byrja?