Viðbygging við Heilbrigðisstofnunina á Selfossi

Fimmtudaginn 12. febrúar 2004, kl. 12:30:06 (4155)

2004-02-12 12:30:06# 130. lþ. 63.11 fundur 145. mál: #A viðbygging við Heilbrigðisstofnunina á Selfossi# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 130. lþ.

[12:30]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Virðulegi forseti. Hv. 1. þm. Suðurk. hefur beint til mín fyrirspurn hvenær vænta megi þess að framkvæmdir við fyrirhugaða stækkun húsnæðis Heilbrigðisstofnunar á Selfossi hefjist. Til þess að svara fyrirspurninni vil ég gjarnan rifja upp hvernig undirbúningi verksins hefur verið háttað.

Undirbúningur og hönnun núverandi viðbyggingar hófst fyrir alvöru árið 2000. Þá var búist við að um allstórt hús yrði að ræða, eða u.þ.b. 2.000 fermetrar, og kostnaður gæti orðið í kringum 360 millj. kr. Á gamlársdag 2001 heimilaði samstarfsnefnd um opinberar framkvæmdir að hafist yrði handa um áætlanagerð vegna viðbyggingar við sjúkrahúsið. Þá var gert ráð fyrir að húsið yrði á tveimur hæðum, 1.100 fermetrar hvor um sig, og verkið mundi kosta 600--700 millj. Hinn 22. maí 2002 samdi heilbr.- og trmn. við Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsens um verkefnisstjórn, rýni og ráðgjöf. Fáum dögum áður hafði verið gengið frá samningum við verkfræðihönnuði en arkitekt hafði unnið að verkinu frá árinu 2000. Hönnun, rýni og lokayfirferð útboðsgagna lauk í lok júní 2003. Á hönnunartímanum höfðu fulltrúar Framkvæmdasýslu ríkisins að einhverju leyti fylgst með gangi hönnunar og veittu í lokin ráðgjöf um endanlegan frágang sjálfra útboðsgagnanna. Í endanlegri gerð var stærð hússins um 4.000 fermetrar. Þá var heildarkostnaður 1.054 millj. kr., verktakakostnaður þar af um 800 millj. miðað við verðlag í maí 2003.

Í tillögum heilbr.- og trmrn. um skiptingu fjárlagaliðs 08-381, sem er stofnkostnaðarliður í fjárlögum ársins 2004, var lagt til að 100 millj. kr. færu til þessa verks en liðurinn í heild var þá 311,5 millj. kr. Á fjárlögum áranna 2000 til og með 2003 hafði samtals verið ákveðið að veita 130 millj. kr. til verkefnisins en undirbúningur þess hefur til þessa kostað um 80 millj. kr.

Þann 30. október óskaði fjmrn. eftir umsögn Framkvæmdasýslu ríkisins um áætlanagerð vegna fyrirhugaðra framkvæmda við verkefnið Heilbrigðisstofnun Suðurlands, viðbygging. Framkvæmdasýslan svarar 7. nóvember og segir að verkið sé tilbúið til útboðs. Reyndar tekur Framkvæmdasýslan dýpra í árinni og segir orðrétt, með leyfi forseta:

,,Ástæða er að vekja athygli á að innsend gögn eru til fyrirmyndar í þessu verki og augljóst er að fagmannlega hefur verið staðið að hönnunarstjórn og verklagsreglum fjármálaráðuneytisins hefur verið samviskusamlega fylgt.``

Hinn 16. desember sl. funduðu fulltrúar fjmrn. og heilbr.- og trmrn. um málið. Í framhaldi af þeim fundi ákvað ég sem heilbrrh. að leita leiða til að stytta verktíma og flýta verklokum á a.m.k. hluta verksins, þ.e. nýbyggð hjúkrunardeild fyrir aldraða sem koma á í stað Ljósheima á Selfossi, sem er eins og kom fram hjá fyrirspyrjanda sá þáttur verksins sem er mest áríðandi án þess að ég sé að gera lítið úr öðrum þáttum.

Málið er nú í höndum samstarfsnefndar um opinberar framkvæmdir en það hefur ekki enn verið til lykta leitt þar en ég vonast til að fá niðurstöðu í þetta mál hið fyrsta. Ég legg áherslu á að hafist verði handa við þetta verk og að unnt verði að taka húsnæði hjúkrunardeildar í notkun ekki seinna en á árinu 2006. Málið er eins og áður hefur verið forgangsmál hjá okkur í nýjum framkvæmdum. Það er vegna þess, eins og fram kom hjá fyrirspyrjanda, að gerðar hafa verið ýmsar athugasemdir við húsnæði Ljósheima og ef við komum ekki þessum framkvæmdum af stað væri nauðsynlegt að fara þar í endurbætur. En það hefur staðið til um langa hríð að fara í þetta verk eins og fram hefur komið, eða frá árinu 2000, og það er eins og áður segir forgangsmál hjá okkur að finna leiðir til að koma því inn í okkar fjárlagaramma á næstu árum.