Viðbygging við Heilbrigðisstofnunina á Selfossi

Fimmtudaginn 12. febrúar 2004, kl. 12:42:50 (4162)

2004-02-12 12:42:50# 130. lþ. 63.11 fundur 145. mál: #A viðbygging við Heilbrigðisstofnunina á Selfossi# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 130. lþ.

[12:42]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég held að það séu engar deilur í þessu máli og ég endurtek að unnið hefur verið að því á liðnum árum og það hve mikið forgangsmál það er í heilbrrn. sést einfaldlega á því að 1/3 af öllu framkvæmdafé ráðuneytisins á árinu, sem er 311 millj. kr., á að fara í þetta verk, þ.e. 311 millj. kr. ef Landspítalinn og FSA eru frádregin. Það er það sem ráðuneytið hefur til framkvæmda í öllum heilbrigðisstofnunum landsins. 100 millj. eiga að fara í þetta verk. Og ég fékk framgengt á síðasta ári breytingartillögu við fjárlögin um 60 millj. kr. til að leggja í undirbúning á þessu verki. En á því stendur að við höfum verið að fara yfir áætlanir okkar til næstu ára og reyna að koma þeim saman þannig að við sjáum fyrir endann á verkinu. Það væri auðvelt að stinga skóflustungu og láta svo skófluna standa í sverðinum einhvern tíma. En við þurfum að sjá fyrir endann á þessu. Við þurfum að sjá fyrir endann á því að hægt sé að byggja Ljósheima vegna þess að þar kreppir skórinn vissulega að. Ég þekki það og þarf ekki að brýna mig neitt í því. Það er þetta sem stendur á. Við þurfum að sjá fyrir endann á verkinu. Það stendur ekkert á mér að vinna í þessu máli. Ég held að ég hafi átt fleiri samtöl um það en nokkurt annað framkvæmdamál á síðustu vikum.