Heilsugæslan á Þingeyri

Fimmtudaginn 12. febrúar 2004, kl. 12:47:28 (4164)

2004-02-12 12:47:28# 130. lþ. 63.12 fundur 399. mál: #A heilsugæslan á Þingeyri# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 130. lþ.

[12:47]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Hv. þm. Sigurjón Þórðarson beindi til mín fyrirspurn um starf hjúkrunarfræðings á Þingeyri en kaus hérna í ræðustól að útfæra fyrirspurnina almennt um ráðningar við stofnanir vítt og breitt. Það vill svo til að það er allt í lagi fyrir mig að svara því þó að reyndar sé ekki venjan að bæta við fyrirspurnum eftir hendinni í ræðustól.

Áður en ég svara fyrstu spurningunni hlýt ég að taka það fram að á Þingeyri, eins og annars staðar á landinu, er eins og kostur er reynt að tryggja íbúunum nauðsynlega heilbrigðisþjónustu sem þeim ber samkvæmt lögum. Þetta er gert með skipulagi heilbrigðisþjónustunnar sem er á hverjum stað reynt að hafa eins og best þjónar hagsmunum heildarinnar og íbúum á viðkomandi svæði.

Heilsugæslustöðin á Þingeyri við Dýrafjörð heyrir undir Heilbrigðisstofnun Ísafjarðarbæjar en miðað er við að hjúkrunarfræðingur og læknir hafi þar aðsetur. Frá árinu 1998 hefur hjúkrunarfræðingur hins vegar ekki haft fasta búsetu á Þingeyri. Samkvæmt upplýsingum framkvæmdastjóra Heilbrigðisstofnunarinnar hefur ítrekað verið auglýst eftir hjúkrunarfræðingi og leitað hefur verið aðstoðar ráðningarþjónustu við að fá hjúkrunarfræðing til starfa. Því miður hefur þetta ekki borið árangur og enginn hjúkrunarfræðingur sótt um starfið enn sem komið er þrátt fyrir að starfsaðstaða sé öll hin besta í nýlegu húsnæði heilsugæslustöðvarinnar.

Hv. þm. spyr hvort ráðherra muni beita sér fyrir betri heilbrigðisþjónustu til handa Dýrfirðingum, t.d. með því að ráðinn verði hjúkrunarfræðingur þangað. Sem kunnugt er annast framkvæmdastjórar heilbrigðisstofnana allar mannaráðningar og svo er einnig í þessu tilviki. Það hefur ítrekað verið leitað eftir hjúkrunarfræðingi til Þingeyrar en það er heldur ekki svo að Dýrfirðingar séu án hjúkrunarfræðings því að hjúkrunarfræðingur frá Flateyri hefur sinnt þeim þann tíma sem hjúkrunarfræðingur hefur ekki verið á staðnum, þar með talið skólaheilsugæslu, mæðravernd, ungbarnaeftirliti og lyfjatiltekt á hjúkrunardeild.

Eins og fram kom er starfsaðstaða við heilsugæslustöðina á Þingeyri góð í nýlegu húsnæði og stöðin ágætlega tækjum búin. Þar er einnig læknisbústaður og íbúð fyrir hjúkrunarfræðing og þar er því öll aðstaða fyrir hendi en vandinn er að fá fólk til starfa. Ég bind vonir við að auknir möguleikar fólks til að sækja sér menntun án þess að flytja úr heimabyggð sinni geti haft áhrif til þess að efla byggðir landsins, m.a. með því að tryggja þeim menntað fólk til starfa.

Þess má geta að haustið 1998 hófst kennsla í hjúkrunarfræði á Ísafirði frá Háskólanum á Akureyri með notkun myndfundabúnaðar. Tíu nemendur, búsettir á Ísafirði, luku námi í hjúkrunarfræði vorið 2002, og þeim á eflaust eftir að fjölga í hópi heimamanna sem afla sér þessarar menntunar og kjósa að starfa í heimabyggð sinni.

Undanfarin ár hefur læknir setið á Þingeyri eins og ráð er fyrir gert. Síðastliðið sumar fór heilsugæslulæknirinn þar hins vegar í námsleyfi gagngert til að ná sér í sérfræðiréttindi í heimilislækningum. Í fjarveru hans er læknisþjónustunni sinnt frá Ísafirði og Flateyri og heimsækir læknir Þingeyri að jafnaði tvisvar í viku.

Varðandi stefnuna almennt í læknaráðningum hefur einstöku stöðum á landinu, þar sem hefur vantað heimilislækna, verið þjónað frá læknum hér syðra og þeir hafa skipst á að þjóna. Nefna má Hólmavík af því að hana bar á góma. Læknirinn á Patreksfirði er nýlega búinn að ráða sig annars staðar og það kann að vera að við þurfum að leysa mál þeirra á þann hátt meðan verið er að leita að mönnum þar til fastra starfa. Það er rétt að fleiri stöður eru lausar en setnar, og við leitumst ætíð við að fylla þær. Hins vegar hefur verið skortur á heimilislæknum. Það lítur betur út í því en hefur verið varðandi framtíðina, það hefur verið miklu meiri ásókn í námsstöður í heimilislækningum heldur en var. Það gefur gott merki um framtíðina í þessum efnum. Launakjör heimilislækna eru mjög góð, vil ég fullyrða, þannig að það ættu að vera allir möguleikar til þess á næstu árum að manna öll læknishéruð landsins. Hins vegar koma því miður upp vandamál, staðbundin vandamál. Þau leitumst við við að leysa með samvinnu við heilsugæsluna hér syðra og það kann að vera að við þurfum að gera það á Patreksfirði, tímabundið vonandi.