Rafræn sjúkraskrá

Fimmtudaginn 12. febrúar 2004, kl. 12:56:33 (4168)

2004-02-12 12:56:33# 130. lþ. 63.13 fundur 486. mál: #A rafræn sjúkraskrá# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Flm. RG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 130. lþ.

[12:56]

Flm. (Rannveig Guðmundsdóttir):

Virðulegi forseti. Fyrirspurn mín til hæstv. heilbrrh. er um hvað líði uppbyggingu rafrænnar sjúkraskrár, hvernig slík sjúkraskrá muni nýtast og hvort unnt verði að safna upplýsingum um greiðslur sjúklinga fyrir læknisverk þannig að afsláttarkerfi almannatrygginga verði virkt um leið og sjúklingur nær tilsettum greiðslumörkum.

Á málþingi læknadaga fyrir u.þ.b. ári var lögð áhersla á það að rafrænn gagnagrunnur með upplýsingum um lyfjanotkun sjúklinga og sjúkrasögu væri helsta forsenda þess að unnt væri að draga úr misnotkun lyfseðilsskyldra lyfja. Þetta kom fram undir umræðu um svokallað læknadóp og hvernig mætti sporna gegn útgáfu slíkra lyfseðla.

Síðastliðið sumar voru svo kynntir þrír samningar heilbrrn. um íslenska heilbrigðisnetið. Því er ætlað að tengja saman aðila í heilbrigðisþjónustu og jafnframt var samið við landlæknisembættið um að safna með rafrænum hætti upplýsingum um vistun frá sjúkrahúsunum í landinu, heilsugæslu og læknastofum um sjúklinga, sjúkdómsgreiningar, biðtíma, meðferð o.fl. Í einu rafrænu kerfi yrðu m.a. allar sjúkraskrár sjúklinga skráðar rafrænt og verða aðgengilegar á öllum sjúkrahúsum landsins.

Í haust var svo sagt frá prófun hugbúnaðar um rafrænar sjúkraskrár og þá sagt að miðað við reynslu Þjóðverja gæti lyfjakostnaður árlega lækkað um 375 millj. kr. og þar tel ég að hafi fyrst og fremst verið átt við Landspítalann sem er með, ef ég man rétt, um 2,5 milljarða í útgjöld vegna þessa. Ef ég man rétt eru heildarútgjöld vegna lyfja 5--6 milljarðar.

Landlæknir hefur síðan upplýst mikilvægi slíkra skráa til að telja saman og meta árangur tiltekinna aðgerða sem gerðar eru á læknastofum. Þetta kom m.a. fram í umfjöllun hans um mikinn fjölda speglana á hnjám með holsjá, en það er önnur umræða sem við hæstv. heilbrrh. tökum síðar.

Þá vaknar auðvitað spurningin hér um það hvað líði slíkri skrá, hvernig hún nýtist og hvort sjái fyrir endann á þessu mikla máli, að afsláttarkerfið verði virkt þannig að hægt sé að senda viðkomandi sjúklingi afsláttarkort. Það hefur komið fram að fjöldi fólks sækir ekki kortin, veit sennilega ekki af því að það á rétt á þeim við tilteknar aðstæður. Þetta væri gífurlegt hagræði fyrir sjúklinga.

Það eru mörg hagsmunamál hér, miklir peningar í því að þetta gerist og því ber ég þessar spurningar fram.