Rafræn sjúkraskrá

Fimmtudaginn 12. febrúar 2004, kl. 12:59:51 (4169)

2004-02-12 12:59:51# 130. lþ. 63.13 fundur 486. mál: #A rafræn sjúkraskrá# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 130. lþ.

[12:59]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að hreyfa þessu máli hér. Þetta er mjög viðamikið og stórt mál sem hér er flotað inn í fyrirspurnatíma:

,,Hvað líður gerð rafrænnar sjúkraskrár og hvernig mun hún nýtast?``

Þróun rafrænnar sjúkraskrár fyrir heilsugæslu, sjúkrahús og aðra þætti heilbrigðisþjónustunnar á sér langa sögu hér landi. Eins og við vitum má rekja upphafið til svonefnds Egilsstaðakerfis sem var sjúkraskrárkerfi fyrir heilsugæsluna en það var fyrst tekið í notkun á árinu 1976. Egilsstaðakerfið var um tíma í notkun á flestum heilsugæslustöðvum utan höfuðborgarsvæðisins. Á níunda áratug síðustu aldar voru a.m.k. tvö önnur kerfi sem fengu nokkra útbreiðslu hérlendis.

Frá árinu 1992 hefur sjúkraskrárkerfið Saga náð mestri útbreiðslu á Íslandi og er nú í notkun á flestum heilsugæslustöðvum landsins. Nýlega hafa tvö stærstu sjúkrahús landsins, Landspítalinn -- háskólasjúkrahús og Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri, gert samning um að taka í notkun Sögukerfið á þeim stofnunum. Geta má þess að sjúkraþjálfarar hafa byggt upp sjúkraskrár- og samskiptakerfi sem heitir Atlas og nær það yfir allt sjúklingabókhald þeirra.

Á næstu tveimur til þremur árum má gera ráð fyrir að stigin verði mikilvæg skref í því að koma rafrænni sjúkraskrá í notkun á öllum heilbrigðisstofnunum landsins. Þeim kerfum er ætlað að halda utan um sjúkragögn einstaklings sem verða til vegna meðferðar hans á heilbrigðisstofnun. Sérhvert sjúkraskrárkerfi verður að geta haldið utan um grunnupplýsingar um sjúkling, ástæður komu hans á sjúkrastofnun, skoðun, meðferðir, árangur og afdrif hans. Kerfið þarf auk þess að geyma upplýsingar um öll formleg samskipti milli heilbrigðisstarfsmanna um sjúklinginn, þ.e. bréf, beiðnir og svör. Sjúkraskrárkerfið er sjálfstætt kerfi sem þarf að geta skipst á upplýsingum við önnur tölvukerfi innan og utan stofnunar.

Á árinu 2001 var tekin saman á vegum heilbr.- og trmrn. kröfulýsing fyrir sjúkraskrárkerfi. Eru þar tilgreindar þær kröfur sem öll sjúkraskrárkerfi verða að uppfylla. Meginmarkmið kröfulýsingarinnar er að samræma skráningu upplýsinga, skilgreina lágmarksskráningu, samræma form helstu upplýsinga sem fara á milli stofnana og kerfa innan heilbrigðiskerfisins og skilgreina lágmarksöryggiskröfur.

Rafræn samskipti milli heilbrigðisstofnana auka möguleika á virkari boðskiptum innan heilbrigðiskerfisins. Í dag eru meira en eitt hundrað eyðublöð í notkun í heilbrigðisþjónustunni. Rafrænt sjúkraskrárkerfi skapar möguleika til að hafa betri stjórn á þessu aukna upplýsingaflæði jafnframt því sem að sjálfsögðu verður dregið úr tví- eða margskráningu sömu atriða um sjúklinga sem er vandamál innan kerfisins.

Með framþróun í tölvu- og fjarskiptatækni eru að opnast nýir möguleikar hvað varðar rafrænar sjúkraskrár. Í nágrannalöndum okkar hefur verið rætt um að koma upp miðlægum sjúkraskrám eða heilsufarsskrám fyrir alla íbúa á viðkomandi svæði eða jafnvel fyrir löndin í heild í þeim tilgangi að bæta þjónustu við skjólstæðinga heilbrigðisþjónustunnar. Það er hins vegar ljóst að hér er um afar kostnaðarsamt og flókið verkefni að ræða sem krefst ítarlegrar skoðunar áður en ákvörðun verður tekin í þeim efnum.

Annar þáttur fyrirspurnarinnar er þessi, með leyfi forseta:

,,Er unnt með skráningu að safna upplýsingum um greiðslur sjúklinga fyrir læknisverk þannig að afsláttarkerfi almannatrygginga verði virkt um leið og sjúklingur nær tilsettum greiðslumörkum?``

Tæknilega er ekkert sem ætti að geta hindrað að þessum upplýsingum yrði haldið saman og þær nýttar til hagsbóta fyrir sjúklinga að uppfylltum kröfum um persónuvernd. Þess háttar kerfi krefst hins vegar þess að settur verði upp viðamikill gagnagrunnur hjá Tryggingastofnun ríkisins með beinum aðgangi allra heilbrigðisstofnana í landinu. Hugmyndir um slíkan gagnagrunn hafa vissulega verið ræddar en á þessari stundu liggur ekki fyrir ákvörðun um framkvæmd. Það þarf að fara fram umræða um hlutverk og gagnsemi slíks kerfis í tengslum við þann kostnað sem er af því að koma því upp. Það er þó alveg ljóst, eins og fyrirspyrjandi nefndi, að það vekur athygli hve fáir sækja afsláttarkortin sín og það væri auðvitað mikil nauðsyn á að fólk væri betur upplýst um rétt sinn í þessum efnum.