Rafræn sjúkraskrá

Fimmtudaginn 12. febrúar 2004, kl. 13:06:09 (4171)

2004-02-12 13:06:09# 130. lþ. 63.13 fundur 486. mál: #A rafræn sjúkraskrá# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi RG
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 130. lþ.

[13:06]

Fyrirspyrjandi (Rannveig Guðmundsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég er nú ekki jafnbjartsýn og Margrét Frímannsdóttir kollegi minn yfir svari hæstv. heilbrrh. því sjúkraskrárkerfið Saga hefur þegar verið tekið upp á tveimur sjúkrahúsum og á næstu árum á að koma upp kerfi á heilsugæslu- og heilbrigðisstofnunum. Síðan þarf að meta hvernig hægt er að tengja sjúkrahúskerfið, sem er sjálfstætt kerfi, hinum kerfunum. Það á eftir að skilgreina öryggiskröfur og hvað megi fara á milli stofnana. Síðan þarf mjög stóran gagnagrunn til að útbúa afsláttarkortin. Mér sýnist því að við séum að horfa mörg ár til framtíðar.

Lítandi til þess hvað er að gerast í nágrannlöndunum þá spyr ég bara: Hvað er að hjá okkur? Við erum upplýst þjóð. Við erum ofsalega tæknivædd þjóð og við erum ríkari en flest lönd. Af hverju höfum við ekki getað gert þetta jafnhratt og nágrannalöndin?

Í nágrannalöndunum er þetta komið á fulla ferð líkt og skráning og fjarlækningar sem ég ræði við hæstv. ráðherra á eftir. Þar er verið að tala um aðgang sjúklinga að eigin sjúkraskrá. Þar er verið að tala um það hvernig sjúklingar geti skoðað upplýsingar um sig og skráningu um sig. Það er kannski enn önnur umræða sem ég kom ekkert inn á hér, sem er náttúrlega sú siðferðisspurning sem vaknar um hvað eigi að fara inn í opna skráningu sem allar heilsugæslustöðvar og öll sjúkrahús hafa aðgang að.

En þar sem þetta er enn ekki komið lengra en að sjúkrahúsin séu komin tvö inn á eitt kerfi, að eftir sé að skoða heilsugæslustöðvarnar og að eftir sé að skoða hvernig hægt er að tengja þetta þá sé ég að við erum svo langt á eftir t.d. Noregi og Svíþjóð að ég verð að lýsa yfir miklum vonbrigðum með svarið, hæstv. forseti.