Stafræn gögn í heilbrigðiskerfinu

Fimmtudaginn 12. febrúar 2004, kl. 13:10:44 (4173)

2004-02-12 13:10:44# 130. lþ. 63.15 fundur 495. mál: #A stafræn gögn í heilbrigðiskerfinu# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi MÁ
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 130. lþ.

[13:10]

Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason):

Forseti. Það sem ég spyr hér um tengist því sem spurt var um í síðasta máli, nefnilega rafrænni skráningu í heilbrigðiskerfinu. Í raun hefði þetta kannski átt að vera ein fyrirspurn. En upp á tímann getum við fagnað því að þær séu tvær.

Þegar hingað koma erlendir menn sem kunnugir eru heilbrigðismálum þá halda þeir þegar þeir stíga hér inn meðal þjóðarinnar að hér sé kominn á miðlægur gagnagrunnur á heilbrigðissviði og spyrja gestgjafa sína og þá sem þeir kynnast um það vegna þess að það sem þeir vita um Ísland er gjarnan einmitt það að þar sé miðlægur gagnagrunnur á heilbrigðissviði á vegum Íslenskrar erfðagreiningar með sérstökum samningi við íslensk stjórnvöld. Þeir verða hlessa þegar þeim er sagt frá því að hann sé nú ekki kominn á þessi miðlægi gagnagrunnur á heilbrigðissviði. Og þegar spurt er hvernig honum líði og hvort verið sé að undirbúa hann þá verða menn að tína það fram að lítið sem ekkert hafi heyrst í heilbrigðisyfirvöldum eða ríkisstjórn Íslands um þetta mál í mörg missiri eftir að ríkisstjórnin keyrði það í gegnum þingið gegn vilja mikils hluta þjóðarinnar sem óttaðist þann gjörning vegna öryggismála og persónuverndar.

Ekki er nema von að hæstv. heilbrrh. verði þess vegna að svara því hvernig líði og hvenær ljúki undirbúningi þessa miðlæga gagnagrunns á heilbrigðissviði, sérstaklega vegna þess að fyrirtækið sem talið var ekki komast af án hans, hið góða hátæknifyrirtæki Íslensk erfðagreining, virðist vegna bara, jú takk, alveg ágætlega án þess að gagnagrunnurinn komist upp og fyrirtækið virðist ekki hafa neinn áhuga á því að gagnagrunnurinn verði til.

Þá er spurning hvernig líði samningum stjórnvalda við þetta fyrirtæki eða hvort þetta mál sé búið og hvort ekki sé þá rétt að hreinsa það bara út úr kerfinu, ágæti forseti, vegna þess að líkur benda til að einmitt þessi samningur og öll sú vitleysa sem stjórnvöld hér stóðu í gegn málsmetandi fólki og miklum hluta þjóðarinnar og stórum hluta þingheims, hefur orðið til þess --- líkur benda til þess --- að tefja einmitt þróun rafrænnar skráningar í heilbrigðiskerfinu sem er, eins og ræðumenn hafa tekið hér fram, ákaflega mikilvægt mál.

Ég ætla að vitna í Samúel J. Samúelsson, yfirlækni á Heilsugæslunni í Mjódd, í síðasta Læknablaði. Hann segir, með leyfi forseta:

,,Það hefur orðið töf á því að hún [þ.e. þróunin] kæmist af stað og ástæðan er eflaust tilkoma hugmyndarinnar um miðlægan gagnagrunn á heilbrigðissviði ... Það náðist ekki samstaða um hann innan læknahópsins og nú virðist hann vera dottinn upp fyrir svo fjármagnið sem átti að koma úr einkageiranum til að tölvuvæða og framleiða hugbúnað fyrir heilbrigðiskerfið kemur ekki þaðan. Ríkið verður því að blása í glæðurnar og koma þessu í gang aftur.``

Ég spyr, ágæti forseti: Hvert er svar hæstv. heilbrrh. við þessari fullyrðingu úr heilbrigðiskerfinu?