Stafræn gögn í heilbrigðiskerfinu

Fimmtudaginn 12. febrúar 2004, kl. 13:14:04 (4174)

2004-02-12 13:14:04# 130. lþ. 63.15 fundur 495. mál: #A stafræn gögn í heilbrigðiskerfinu# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 130. lþ.

[13:14]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Virðulegi forseti. Spurningarnar sem hv. þm. Mörður Árnason beindi til mín voru eftirfarandi, með leyfi forseta:

,,1. Hvenær lýkur undirbúningi miðlægs gagnagrunns á heilbrigðissviði?

2. Hversu alvarlegum töfum hefur drátturinn við undirbúning gagnagrunnsins valdið við að stofna til rafrænnar skráningar gagna í heilbrigðiskerfinu?``

Í fyrsta lagi var rekstrarleyfi til starfrækslu gagnagrunns á heilbrigðissviði gefið út í janúar árið 2000. Í rekstrarleyfinu voru settir mjög ítarlegir skilmálar um gerð og starfrækslu gagnagrunnsins, þar á meðal ákvæði þess efnis að rekstrarleyfishafa beri að uppfylla kröfur tölvunefndar, nú Persónuverndar, á hverjum tíma við gerð og starfrækslu gagnagrunnsins í samræmi við skilmála sem koma fram í viðauka við rekstrarleyfið um tækni-, öryggis- og skipulagsskilmála tölvunefndar vegna gagnagrunns á heilbrigðissviði, sbr. lög þar um nr. 139/1998. Samkvæmt lögum um gagnagrunn á heilbrigðissviði er það skilyrði fyrir að unnt sé að hefja flutning gagna í gagnagrunn á heilbrigðissviði að samið hafi verið við viðkomandi heilbrigðisstofnun um að tækni-, öryggis- og skipulagslýsing uppfylli kröfur Persónuverndar. Að fengnu rekstrarleyfi hóf rekstrarleyfishafi vinnu við hönnun gagnagrunnsins og hafa orðið allnokkrar breytingar á henni frá því sem gert var ráð fyrir í viðauka við rekstrarleyfið. Persónuvernd vann síðan að úttekt kerfisins, m.a. með aðstoð erlendra sérfræðinga á sviði persónuverndar. Haustið 2002 kom upp ágreiningur milli Íslenskrar erfðagreiningar og Persónuverndar vegna breytinga á hönnun gagnagrunnsins og úttektar Persónuverndar á þeim. Persónuvernd telur að þar skorti gögn frá Íslenskri erfðagreiningu til þess að unnt sé að ljúka úttektinni en Íslensk erfðagreining sakar Persónuvernd um ástæðulausar tafir og ómálefnalega meðferð málsins.

Endanleg úttekt Persónuverndar liggur því enn ekki fyrir. Þess vegna er á þessu stigi erfitt að segja til um hvenær undirbúningi gagnagrunnsins muni ljúka.

Eins og fram kemur í lögum um gagnagrunn á heilbrigðissviði skulu upplýsingar um gagnagrunninn unnar þannig að þær uppfylli þarfir viðkomandi stofnunar fyrir samræmt upplýsingakerfi. Það var því gert ráð fyrir að við vinnslu gagnanna yrði jafnframt til samræmt, rafrænt upplýsingakerfi fyrir heilbrigðisstofnanir. Það má því gera ráð fyrir að þetta hafi valdið einhverjum töfum á þeirri vinnu sem annars hefði væntanlega verið unnin við undirbúning rafræns upplýsingakerfis. Hins vegar er erfitt að segja hve sú vinna hefði verið mikil eða hversu langt hún væri komin, enda hefði hraði verksins byggst á þeim fjármunum sem veittir hefðu verið til verksins á þessu tímabili.

Varðandi stöðu þessara mála núna hef ég svarað hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur og vil ekki endurtaka það. Ég tel, eins og ég segi, að við megum ekki bíða miklu lengur. Við verðum á næstu tveimur til þremur árum að taka mikilvæg skref til þess að samkeyra rafrænar sjúkraskrár og rafrænt kerfi í öllum heilbrigðisstofnunum landsins.