Stafræn gögn í heilbrigðiskerfinu

Fimmtudaginn 12. febrúar 2004, kl. 13:17:46 (4175)

2004-02-12 13:17:46# 130. lþ. 63.15 fundur 495. mál: #A stafræn gögn í heilbrigðiskerfinu# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi MÁ
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 130. lþ.

[13:17]

Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason):

Forseti. Ég þakka hæstv. heilbrrh. fyrir svörin vegna þess að ég tel að þau hafi verið mikilvæg. Hann hefur viðurkennt að samningurinn og þetta erfiða mál, sem var rakið í ágætu yfirliti um sögu hins miðlæga gagnagrunns á heilbrigðissviði í fjögur ár, hafi valdið einhverjum töfum og ekki hægt að áætla hvað þær eru miklar og tekur því undir með Samúel J. Samúelssyni heilsugæslulækni um það. Enn þá mikilvægari er sú yfirlýsing hans að ekki sé hægt að bíða miklu lengur eftir lokum málsins því auðvitað er rökrétt að þróunin á rafrænum sjúkraskrám, sem fer fram á annarri braut en fyrirhugað var með hinum miðlæga gagnagrunni á heilbrigðissviði, endi í miðlægum, rafrænum gagnagrunni sjúkraskráa yfir allt landið með þeim öryggiskröfum og með því viðmóti gagnvart persónuvernd og tilfinningum fólks sem við eiga hverju sinni.

Ég tel þetta ákaflega mikilvægt og skora á hæstv. heilbrrh. að koma samningum um hinn miðlæga gagnagrunn á heilbrigðissviði frá, því á þeim virðist ekki vera nokkur áhugi hjá þeim aðilum sem að honum stóðu á sínum tíma og heldur ekki hæstv. núverandi heilbrrh., svo hægt sé að hefjast handa um þetta mikilvæga verkefni sem hér var rakið í síðustu umræðu, að koma upp rafrænum sjúkraskrám og samtengja þær svo í eitt kerfi í heilbrigðisstofnunum landsins.