Fjarlækningar

Fimmtudaginn 12. febrúar 2004, kl. 13:29:53 (4179)

2004-02-12 13:29:53# 130. lþ. 63.14 fundur 487. mál: #A fjarlækningar# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., MF
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 130. lþ.

[13:29]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Það er dálítið merkilegt að í fyrirspurnatímanum í dag hefur farið fram umræða um heilbrigðismál á víðum grunni. Eitt af því sem er mjög spennandi að taka hér til umræðu eru einmitt fjarlækningarnar sem hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir hefur lagt fram fsp. um vegna þess að ég held að þær séu undirstaða þess að við búum við það öryggisnet í heilbrigðisþjónustunni sem við viljum gjarnan búa við. Hins vegar er ég þeirrar skoðunar að það verði ekki hægt að taka fjarlækningarnar í notkun þannig að þær skili sér fyllilega fyrr en búið er að endurskipuleggja heilbrigðiskerfið, þ.e. þjónustusvæðin á landinu, sameina stofnanir og styrkja þær.

Ég tek undir með hæstv. ráðherra að þau verkefni sem hafa verið í gangi eru mjög merkileg og heilbrigðisþjónustan t.d. við sjófarendur á mikið undir því að okkur takist að skipuleggja fjarlækningar og taka þær inn í okkar kerfi í náinni framtíð.