Aðgengismál fatlaðra

Fimmtudaginn 12. febrúar 2004, kl. 13:47:06 (4182)

2004-02-12 13:47:06# 130. lþ. 63.18 fundur 264. mál: #A aðgengismál fatlaðra# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 130. lþ.

[13:47]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Árið 1996 var gerð rannsókn á vegum Evrópusambandsins um möguleika fatlaðra til að ferðast. Þar kemur fram að fjöldi þeirra fötluðu einstaklinga sem ferðast er aðeins um 18% af þeim sem vildu ferðast ef aðstæður væru fyrir hendi. Þær hindranir sem nefndar eru í niðurstöðum rannsóknarinnar eru m.a. slæmt aðgengi, skortur á nægjanlega góðum upplýsingum, óöryggi viðkomandi, ófullnægjandi þjálfun starfsfólks, leiðsögumanna o.fl.

Það má reikna með því að niðurstöður yrðu svipaðar hér ef sams konar könnun væri gerð. Aðeins lítill hluti þeirra fötluðu einstaklinga sem gjarnan vildu ferðast getur notið þess hér á landi.

Í úttekt starfshóps félmrn. sem unnin var 1999 á möguleikum fatlaðra til menningar- og tómstundastarfa kom fram að hér á landi er víða pottur brotinn og langt frá því að fatlaðir og ófatlaðir búi við jafna möguleika á þessu sviði. Starfshópurinn skilaði skýrslu sinni til félmrh., og hæstv. félmrh. sendi síðan niðurstöður starfshópsins til viðkomandi ráðuneyta til úrlausna eftir því sem þáv. félmrh. sagði í svari sínu við fyrirspurn minni um það hvernig niðurstöðum skýrslunnar yrði fylgt eftir.

Síðan þá virðist lítið hafa gerst hjá hinum ýmsu ráðuneytum og samkvæmt skilgreiningum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar er talið að um 10% af heildarfjölda þjóða búi við fötlun af einhverju tagi. Þarna er því um mjög stóran hóp að ræða sem ekki nær að njóta þeirra möguleika sem boðið er upp á, t.d. í ferðageiranum, ásamt þeim fjölda sem fylgir fötluðum, bæði fjölskylda og einnig einstaklingar sem fara með til fylgdar og aðstoðar.

Ein af þeim ábendingum sem sendar voru frá félmrn. til samgrn. árið 1999, og átti að mati þáv. félmrh. að leysa þar, var tilmæli til þess ráðuneytis um að það beitti sér fyrir því að gerð yrði ítarleg úttekt á hótelum og gististöðum í landinu með tilliti til aðgengis og þjónustu fyrir fatlaða.

Ég spyr því hæstv. ráðherra: Hefur verið farið að þessum tilmælum? Ef ekki, hver er ástæða þess?