Ferðamál fatlaðra

Fimmtudaginn 12. febrúar 2004, kl. 14:04:03 (4188)

2004-02-12 14:04:03# 130. lþ. 63.19 fundur 265. mál: #A ferðamál fatlaðra# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 130. lþ.

[14:04]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin og þann áhuga sem hann hefur í störfum sínum sýnt á að bæta úr á sviði ferðaþjónustu fyrir fatlaða, þ.e. að þeir geti notið þeirrar ferðaþjónustu sem stendur til boða. Ég hef reyndar skoðað niðurstöðu könnunar sem Sjálfsbjörg gerði og sá að þarna eru í kringum 140 aðgengilegir staðir, staðir sem eru innan ferðaþjónustunnar sem fatlaðir eiga góðan aðgang að. Hins vegar er aðgengi mjög víða ábótavant og þar þarf úrbætur.

Eins og hæstv. ráðherra kom inn á er þetta nokkuð stór hópur, ef horft er til markaðarins. Ef marka má Alþjóðaheilbrigðisstofnunina þá býr um 10% þjóðarinnar við fötlun af einhverju tagi. Þeirra niðurstaða er að reikna megi með því að 10% íbúa hverrar þjóðar búi við fötlun af einhverju tagi. Það er nauðsynlegt að tryggja jafnrétti þessa fólks, jafnan rétt þeirra og möguleika til ferðalaga og tómstunda. Þess vegna þarf, ekki síður en að búa til upplýsingar um aðgengilega staði, að koma á framkvæmdaáætlun um hvernig megi bæta úr á þeim stöðum þar sem aðgengi er óásættanlegt.