Greiðsla fæðingarstyrks

Fimmtudaginn 12. febrúar 2004, kl. 14:06:08 (4189)

2004-02-12 14:06:08# 130. lþ. 63.20 fundur 321. mál: #A greiðsla fæðingarstyrks# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 130. lþ.

[14:06]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Löggjöf um fæðingar- og foreldraorlof fylgir reglugerð nr. 909/2000, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks. Þar segir í 13. gr., um greiðslu fæðingarstyrks:

,,Tryggingastofnun ríkisins er, þrátt fyrir 12. gr., heimilt á grundvelli umsóknar að greiða fæðingarstyrk til foreldris sem hefur flutt lögheimili sitt tímabundið vegna náms erlendis, enda hafi foreldri átt lögheimili hér á landi samfellt í a.m.k. fimm ár fyrir flutning.``

Þessi grein þessarar ágætu reglugerðar var í mínum huga og sjálfsagt margra annarra mjög góð. Hún átti að tryggja að þeir sem héðan færu til að stunda nám erlendis ættu rétt á greiðslu fæðingarstyrks. Nú hefur það hins vegar gerst í nokkrum tilvikum, þar sem um er að ræða einstaklinga, ungt fólk sem hefur farið af landi brott til náms erlendis og flutt til þess landsins þar sem námið skal stunda með einhverjum fyrirvara áður en námið hefst, að viðkomandi hafa fengið synjun frá Tryggingastofnun ríkisins um greiðslu á fæðingarstyrk.

Mér er kunnugt um sérdeilis einkennilegt dæmi í þessum efnum. Bréf barst frá Tryggingastofnun 22. maí 2003 til ungs fólks sem býr í Danmörku, sem er í sambúð þar, og eignaðist um mánaðamótin maí/júní fallega dóttur. Þau sóttu um greiðslu fæðingarstyrks og fengu bréf frá Tryggingastofnun dagsett 22. maí. Umsóknin var tekin gild og jafnframt fengu þau að vita hvernig greiðslum yrði háttað, þ.e. að í júní 2003 kæmu 39.232 kr., 1. júlí sama upphæð og 1. ágúst sama upphæð. Jafnframt var tilgreint inn á hvaða reikning greiðslurnar yrðu lagðar. Síðan gerist það að þeim berst annað bréf, dagsett 10. júní, þar sem umsókninni er hafnað. Umsókn þeirra er hafnað á þeim forsendum að þau hafi hafið búsetu í Danmörku örfáum mánuðum áður en námið hófst, þar sem þau fluttu til Danmerkur með fjölskyldu, með barn, og heimilisfaðirinn stundaði þar vinnu í þrjá mánuði áður en skólaganga hófst. Á þessum forsendum einum saman er umsókn þeirra hafnað.

Þetta getur varla verið tilgangurinn með þessum lögum og reglugerðum. Því spyr ég ráðherrann: Hyggst hann breyta þeim?