Greiðsla fæðingarstyrks

Fimmtudaginn 12. febrúar 2004, kl. 14:09:28 (4190)

2004-02-12 14:09:28# 130. lþ. 63.20 fundur 321. mál: #A greiðsla fæðingarstyrks# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 130. lþ.

[14:09]

Félagsmálaráðherra (Árni Magnússon):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Margrét Frímannsdóttir beinir til mín fyrirspurn um hvort fram undan sé endurskoðun reglugerðar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslur fæðingarstyrks vegna námsmanna erlendis?

Reglugerð nr. 909/2000, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslur fæðingarstyrks, tók gildi 1. janúar 2001. Frá þeim tíma hefur hún reglulega verið tekin til endurskoðunar. Í desember 2001 var staða námsmanna sem höfðu á viðmiðunartímabilinu verið í skóla og síðan farið út á vinnumarkaðinn bætt. Síðan var gerð breyting á reglugerðinni í desember 2002. Sú breyting var einnig gerð til að styrkja stöðu námsmanna.

Samkvæmt 1. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar telst fullt nám, í skilningi laganna um fæðingar- og foreldraorlof og reglugerðarinnar, vera 75--100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun á Íslandi í a.m.k. sex mánuði og síðustu 12 mánuði fyrir fæðingu barns. Síðan segir að heimilt sé að meta sambærilegt nám í öðrum ríkjum, enda uppfylli foreldri ákveðin lögheimilisskilyrði.

Í 1. mgr. 12. gr. reglugerðarinnar er það gert að skilyrði fyrir greiðslu fæðingarstyrks til námsmanna að viðkomandi hafi átt lögheimili hér á landi við fæðingu barns og síðustu 12 mánuði þar á undan. Þó er í 13. gr. reglugerðarinnar kveðið á um undanþágu til greiðslu fæðingarstyrks til foreldris sem hefur flutt lögheimili sitt tímabundið vegna náms erlendis, enda hafi foreldri átt lögheimili hér á landi samfellt í a.m.k. fimm ár fyrir flutning.

Með hliðsjón af framangreindu gilda sömu reglur hvað varðar skilyrði fyrir greiðslu fæðingarstyrks til námsmanna, hvort sem þeir stunda nám hér á landi eða erlendis, að undanskildum þessum reglum um lögheimili.

Hæstv. forseti. Eins og áður var nefnt hafa verið gerðar breytingar sem sérstaklega var ætlað að skýra og bæta stöðu námsmanna. Þær reglur sem lagðar eru til grundvallar ákvörðunum um greiðslur til foreldra í námi við töku fæðingarorlofs eru stöðugt til skoðunar. Það á við hvort sem um er að ræða námsmenn hérlendis eða erlendis. Svo mun áfram verða.

Sá er hér stendur þekkir ekki til þess dæmis sem hv. þm. setti fram. Hins vegar er sjálfsagt að fara yfir það og skoða. Það á við um öll atriði er varða greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði að allar ábendingar um það sem betur mætti fara eru vel þegnar og verða skoðaðar ef þurfa þykir.

Ég hef hins vegar fram undir þetta, með hliðsjón af því sem hér hefur komið fram, ekki talið ástæðu til að gera breytingar á framangreindum atriðum. Ég er þó að sjálfsögðu tilbúinn að fara yfir þær ábendingar sem þingmaðurinn hefur komið með.