Greiðsla fæðingarstyrks

Fimmtudaginn 12. febrúar 2004, kl. 14:12:16 (4191)

2004-02-12 14:12:16# 130. lþ. 63.20 fundur 321. mál: #A greiðsla fæðingarstyrks# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 130. lþ.

[14:12]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Í þessu tiltekna máli sem ég tók dæmi um, það er því miður ekki einsdæmi, hefur úrskurðurinn verið kærður, honum verið áfrýjað. Hins vegar er nú komið hátt í ár frá því barnið fæddist sem greiða átti þennan fæðingarstyrk með, 1. júní í fyrra. Það er að verða komið ár og enn hafa ekki borist lokasvör.

Staðreyndin er sú að þarna flytur ungt par út. Það á eitt barn og flytur út í febrúar. Húsbóndinn, ef maður orðar það svo, fer í vinnu, stundar vinnu í þrjá mánuði áður en hann byrjar í skóla. Þau flytja út vegna þess að þau fá húsnæði og ætla að reyna að setja sig inn í málið. Hann hefur síðan nám í ágúst sama ár, nám sem búið var að ganga frá í febrúar þegar hann flutti út. Það var búið að ákveða það nám og öll vottorð þess efnis liggja fyrir. En vegna þess að hann vogar sér að framfleyta fjölskyldunni, reyna að setja sig inn í tungumálið áður en hann hefur námið, er honum neitað um þennan styrk.

Tryggingastofnun ríkisins segir ósköp einfaldlega að samkvæmt upplýsingum úr þjóðskrá hafi þau flutt til Danmerkur í febrúar 2002. Nám hófst ekki fyrr en mánaðamótin ágúst/september 2002. Einnig segir að í framlögðum gögnum komi fram að viðkomandi hafi starfað í þrjá mánuði áður en nám hófst. Tryggingastofnun lítur því svo á að þau hafi ekki flutt lögheimili sitt tímabundið vegna náms erlendis. Umsókninni er því synjað.

Þessi niðurstaða er algjörlega með ólíkindum. Ég beini því til hæstv. ráðherra að hann skoði ekki eingöngu þetta mál heldur önnur sambærileg. Það er fullkomlega eðlilegt og af hinu góða að fólk flytji til lands þar sem það ætlar að stunda nám með einhverjum fyrirvara og setji sig inn í tungumálið.