Bið eftir heyrnartækjum

Fimmtudaginn 12. febrúar 2004, kl. 14:31:11 (4197)

2004-02-12 14:31:11# 130. lþ. 63.17 fundur 536. mál: #A bið eftir heyrnartækjum# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi JóhS
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 130. lþ.

[14:31]

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Hæstv. forseti. Fyrir 2--3 árum lagði ég fram fyrirspurn fyrir hæstv. heilbrrh. um bið eftir heyrnartækjum með líkum hætti og ég geri nú. Þá kom fram í skriflegu svari hæstv. ráðherra að það væri um eins árs bið eftir heyrnartækjum og þriggja mánaða bið eftir heyrnarmælingum. Sú fyrirspurn var mun ítarlegri en sú sem ég legg fram nú. Þar kom líka fram að greiðsluþátttaka fólks vegna heyrnartækja væri allt að 22 þús. kr. en greiðsluþátttaka hjá einkaaðilum væri á bilinu 150--310 þús. kr. Þá kom einnig fram að það væru um þúsund einstaklingar sem væru á biðlista sem biðu eftir 1.700 tækjum.

Í því svari kom einnig fram hvaða áhrif langur biðtími eftir heyrnartækjum hefur á félagslegt umhverfi og atvinnumöguleika fullorðinna. Þar kom m.a. fram að Heyrnar- og talmeinastöð Íslands bendi á að heyrnarskerðing geti valdið fullorðnu fólki einangrun og óöryggi, fólk hafi misst vinnu vegna þess að það heyrði ekki í síma á vinnustað eða átti erfitt með að halda uppi samræðum í þjónustustörfum og þessir einstaklingar fari síður á fjölmenn mannamót, veigri sér við að svara í síma og heyri jafnvel ekki í síma eða bjölluhringingu. Því sé hætta á félagslegri einangrun og það ráðist að sjálfsögðu m.a. af því hve lengi einstaklingar þurfa að bíða og stefnt sé að því, eins og fram kom í svari ráðherrans, að stytta biðlista. Loks kom fram að bið eftir heyrnartækjum hafi veruleg áhrif á lífsgæði fólks og því þurfi á hverjum tíma að leita leiða til að biðtími sé eins stuttur og nokkur kostur er. Og þær aðgerðir sem ráðherra nefndi í svari sínu, sem voru margs konar sem ætti að grípa til, voru dæmi um leiðir til þess að stytta biðtímann.

Þess vegna hefur það komið mér mjög á óvart hve oft hefur verið leitað til mín á umliðnum vikum þar sem kvartað er yfir löngum biðtíma eftir heyrnartækjum og mér tjáð að hann hafi ekkert styst og sé u.þ.b. ár. Því lék mér forvitni á að vita hvað hafi verið gert á þessum tíma frá því að ég bar þessa fyrirspurn fram til hæstv. ráðherra og legg því fram til hans nú eftirfarandi fyrirspurn um málið:

1. Hversu margir bíða nú eftir heyrnartækjum, hve löng er biðin og hvað kostar að eyða biðlistum?

2. Hversu margir leituðu til einkaaðila á síðasta ári vegna kaupa á heyrnartækjum og hve langur er biðlistinn þar?

3. Hver er kostnaður einstaklinga við kaup á heyrnartækjum annars vegar hjá Heyrnar- og talmeinastöðinni og hins vegar hjá einkaaðilum?