Bið eftir heyrnartækjum

Fimmtudaginn 12. febrúar 2004, kl. 14:41:54 (4200)

2004-02-12 14:41:54# 130. lþ. 63.17 fundur 536. mál: #A bið eftir heyrnartækjum# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 130. lþ.

[14:41]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég hygg að þegar ég svaraði fyrirspurn hv. þm. síðast hafi ég sagt að biðlisti eftir heyrnartækjum væri hvimleiður og ég er enn þeirrar skoðunar. En það hefur verið unnið að því af afli að stytta hann og náðst verulegur árangur og við höldum áfram á þeirri braut að stytta þennan lista.

Varðandi niðurgreiðslu á tækjum þá höfum við ákveðna upphæð á fjárlögum til niðurgreiðslu á tækjum og höfum samið við Heyrnar- og talmeinastöðina og Heyrnartækni um greiðsluþátttöku í þeim tækjum sem þar eru seld, en Heyrnartækni er nýkomið inn á markaðinn. Þar fer auðvitað fram venjuleg skoðun og mælingar sem er nauðsynlegur aðdragandi að því að selja tækin. Hins vegar er það ekki bannað fremur en í öðrum sérfræðilækningum að leita sér þjónustu utan við þann pott sem fyrirtækið hefur í greiðsluþátttökunni. (JóhS: Þá er hægt að kaupa sig fram fyrir.) Það er hægt að kaupa tæki já, hjá þessu fyrirtæki með venjulegum afgreiðslufresti og ég hygg að ef það er gert í ríkum mæli muni það í þessu tilfelli stytta biðlistann hjá þeim sem bíða eftir þessari þjónustu.