Söfnunarkassar

Fimmtudaginn 12. febrúar 2004, kl. 14:47:59 (4202)

2004-02-12 14:47:59# 130. lþ. 63.22 fundur 519. mál: #A söfnunarkassar# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 130. lþ.

[14:47]

Dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. þessar spurningar og tek undir það með honum að gera þarf gangskör að því að setja þær reglur sem mælt er fyrir um að settar skuli samkvæmt lögunum og hef ég sett það starf af stað innan dómsmrn. Ætla ég ekki að segja neitt um tímaramma að því er starfið varðar en það er hafið. Er nauðsynlegt að mínu mati að þessar reglur séu fyrir hendi, bæði í þeim tilgangi sem hv. fyrirspyrjandi nefndi til að það sé ljóst fyrir þá sem reka þessa kassa hvernig að því skuli staðið en ekki síður fyrir ráðuneytið sjálft til þess að geta framfylgt því eftirliti sem því er skylt að halda uppi gagnvart þessari starfsemi.

Það vill svo vel til líka að nýlega hafa verið stofnuð samtök áhugafólks um spilafíkn og ráðuneytið hefur ákveðið að aðstoða þau samtök við að koma starfi sínu af stað. Formaður samtakanna hefur rætt við mig og ég tel að það sé ákaflega mikilvægt að eiga samstarf við slíkan aðila, formlegan aðila, þegar gengið er til þess að setja slíkar reglur, en ekki sé aðeins tekið mið af þeim sjónarmiðum sem koma fram hjá þeim sem starfa á grundvelli laganna og eru að framkvæma þau með starfsemi sinni.

Varðandi aldursmörkin sem hv. þm. nefndi tóku þau að sjálfsögðu mið af sjálfræðisreglunum sem giltu þegar lögin voru samþykkt. Síðan hafa fyrirtæki sem reka kassana hækkað aldurstakmarkið í 18 ár og ég veit að Íslandsspil bindur í samningi við eigendur þeirra staða þar sem kassar eru að þess sé gætt að unglingar yngri en 18 ára hafi ekki aðgengi að kössunum. Og til að koma í veg fyrir óæskilegt aðgengi að kössunum hefur Íslandsspil m.a. komið upp fjarstýrðum rofum í fjölda söluturna þannig að unnt er að slökkva á kössunum við vissar aðstæður, svo sem ef hópur unglinga kemur í söluturn. Þá hefur Íslandsspil einnig sent öllum sýslumönnum tilkynningu um hvar kassar eru og uppfærir slíkar tilkynningar á sex mánaða fresti.

Það er því ýmislegt gert nú þegar til að fylgjast með þessari starfsemi, en ég er sammála fyrirspyrjanda um það sem fram kom í máli hans að nauðsynlegt er að huga að þeim lagaákvæðum sem mæla fyrir um setningu reglugerða og er vinna hafin við það að semja slíkar reglugerðir.