Flatey á Mýrum

Fimmtudaginn 12. febrúar 2004, kl. 15:09:30 (4211)

2004-02-12 15:09:30# 130. lþ. 63.24 fundur 478. mál: #A Flatey á Mýrum# fsp. (til munnl.) frá landbrh., landbrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 130. lþ.

[15:09]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Saga þessarar jarðar er nokkuð sérstök. Flatey var seld ríkinu á sínum tíma með kvöð um að fyrri eigendur fengju endurgjaldslausa lífstíðarábúð á jörðunum. Þá var graskögglaverksmiðjan og sú hugsjón öll í gangi. Annar þessara aðila hefur endurgjaldslausan leigusamning, hinn er látinn en hafði áður afsalað sér ábúðarrétti til handa núverandi leigutaka. Þriðji leigusamningurinn er um leigu undir skógrækt og uppgræðslu. Svo eiga leigutakar mismiklar eignir í jörðunum þannig að þeir eiga þarna sjálfir miklar eignir.

Ég kannast við umræðuna og hef tekið þátt í henni með bæði bæjarstjórn og heimamönnum um Vatnajökulsþjóðgarðinn. Það er allt opið í þeim efnum og verður haft sem leiðarljós í umræðu um þessa jörð og það samstarf sem þarf að hafa við bændur, hvort sem þeir eru á ríkisjörðum þarna eða eignarjörðum, hvernig því mikla verkefni verður komið í höfn.

Eins er það með hreindýraveiðarnar. Ég kannast við það sem hv. þm. nefnir og ákveðnir erfiðleikar í sambandi við hreindýraveiðar hafa komið inn á mitt borð. Það er reynt að leita lausna á því og verður gert áfram þannig að ég vil ekki hafa fleiri orð um það hér.

Svo er ég spurður um hverjar hafi verið leigutekjur af ríkishluta jarðarinnar Flateyjar á Mýrum undanfarin ár.

Ég vil tilgreina það. Til ársins 2002 voru álögð afgjöld þarna miðað við byggingarvísitölu í mars 2002 8.730 kr. á ári. Þessi mál frá fornu fari hafa verið í mikilli endurskoðun í ráðuneytinu síðustu árin og á árinu 2003 voru álögð afgjöld í samræmi við endurskoðunina miðað við sömu vísitölu og viðmiðun í fasteignamati 135.195 kr.

Síðan er það þessi spurning hvort ráðherra muni segja upp leigusamningi jarðarinnar með tilliti til þess að landið verði ekki lengur nytjað til landbúnaðar. Ég vil bara segja hér um það mál að í gangi er leigusamningur um þessa jörð og hann framlengist frá ári til árs eins og staðan er, og hvorki í minni tíð né fyrir mína tíð hefur það verið efnt sem núverandi leigutaka var heitið á sínum tíma, að hann fengi ábúð á jörðinni. Það hefur ekki verið staðfest, sérstaklega kannski út af þjóðgarðsumræðunni, en ég vil hér segja um mál þessa einstaklings að engin ákvörðun hefur verið tekin um að segja honum upp leigusamningi á jörðinni. Það er mál sem maður ræðir fremur með hverjum og einum. Þessi ábúandi hefur eðlilega margleitað eftir ábúðarsamningi til að öðlast rétt sinn á þessari jörð en ekki fengið hann og leitar eðlilega eftir lengri leigusamningi, en í þessu fari hefur hann verið. Og ég lýsi ekki við þessa umræðu yfir neinni breytingu hvað það varðar.