Útflutningur á lambakjöti

Fimmtudaginn 12. febrúar 2004, kl. 15:26:54 (4217)

2004-02-12 15:26:54# 130. lþ. 63.25 fundur 555. mál: #A útflutningur á lambakjöti# fsp. (til munnl.) frá landbrh., AKG
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 130. lþ.

[15:26]

Anna Kristín Gunnarsdóttir:

Virðulegi forseti. Mér finnst alltaf gleymast, því miður, í allri þessari umræðu þegar rætt er um árangur í sölu lambakjöts á erlendum mörkuðum, einn hlutaðeigandi í þessu máli. Það er hinn íslenski bóndi. Íslenski bóndinn sem framleiðir lambakjötið fær því miður sjaldnast verð fyrir sem svarar til breytilegs kostnaðar fyrir framleiðsluvöru hans. Við það verður ekki unað. Ég vildi óska að landbrh. færi að leita annarra leiða en þeirra sem hann hefur valið. Ég vildi óska þess að hann drægi til baka þá reglugerð sem hann setti fram síðasta haust, sem gerir það að verkum að fátækir bændur í erfiðum og dreifbýlum sveitum landsins eru jafnvel sviptir aukavinnu, aukatekjum sem þeir höfðu áður af því að vinna í sláturhúsum.