Útflutningur á lambakjöti

Fimmtudaginn 12. febrúar 2004, kl. 15:28:09 (4218)

2004-02-12 15:28:09# 130. lþ. 63.25 fundur 555. mál: #A útflutningur á lambakjöti# fsp. (til munnl.) frá landbrh., BjörgvS
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 130. lþ.

[15:28]

Björgvin G. Sigurðsson:

Ágæti forseti. Það verður ekki of oft tekið fram að hlutur sauðfjárbænda í samfélaginu er með því versta og raunalegasta sem þekkist í auðugum nútímasamfélögum Vesturlanda. Til marks um ástandið í greininni má nefna þá uppgjöf sem fram kom í máli hæstv. iðn.- og viðskrh. og sauðfjárbónda, Valgerðar Sverrisdóttur. Sú afstaða kom fram í því sem hv. þm. Jóhann Ársælsson, fyrirspyrjandi, las upp áðan.

Í ljósi þeirrar hörmulegu stöðu sem uppi er er mikilvægast að hæstv. landbrh. svari skýrt og komi með sterk skilaboð til þeirra sauðfjárbænda sem berjast í bökkum í þröngri og ömurlegri stöðu hvort til greina komi að auka frelsi í greininni og aflétta útflutningsskyldunni af bændum.