Skýrsla forsætisráðherra um launamun kynjanna

Mánudaginn 16. febrúar 2004, kl. 15:05:39 (4224)

2004-02-16 15:05:39# 130. lþ. 64.1 fundur 321#B skýrsla forsætisráðherra um launamun kynjanna# (óundirbúin fsp.), SJS
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 130. lþ.

[15:05]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir svörin svo langt sem þau ná. Ég hafði ekki áttað mig á því að skýrslan hafi ekki einu sinni verið tekin fyrir í ríkisstjórn enn þá, en gott er að það standi fyrir dyrum. Það sem mér finnst náttúrlega að verði að horfast í augu við og taka alvarlega er sú staðreynd að við erum með í höndunum gögn, ítarleg nýleg gögn, bæði tölfræðileg gögn og eins niðurstöður úr viðhorfskönnun sem staðfesta þann veruleika að það er hreinn kynbundinn launamunur af stærðargráðunni 7,5%--11%. Þetta stendur eftir þegar allar aðrar breytur sem hægt er að taka til greina sem útskýringar á allt að 30% lægri launum kvenna að meðaltali eru frádregnar sem er auðvitað óþolandi ástand. Mér finnst að menn verði að taka það mjög alvarlega þegar slíkar upplýsingar eru staðfestar í höndunum á þeim. Það er hreint brot á landslögum. Ég vona að hæstv. forsrh. geri sér grein fyrir því. Það mætti kannski spyrja hæstv. ráðherra hvernig ríkisstjórnin hyggist, með eftirlits\-tækjum sínum og stjórnsýslutækjum, fylgja þessum hlutum betur eftir.