Upplýsingasamfélagið

Mánudaginn 16. febrúar 2004, kl. 15:09:09 (4227)

2004-02-16 15:09:09# 130. lþ. 64.1 fundur 322#B upplýsingasamfélagið# (óundirbúin fsp.), KLM
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 130. lþ.

[15:09]

Kristján L. Möller:

Virðulegi forseti. Haustið 1996 þegar þróunarverkefninu um íslenska upplýsingasamfélagið var hleypt af stað sagði hæstv. forsrh. þetta m.a., með leyfi forseta:

,,Sú hraða þróun, sem nú á sér stað í samskiptatækni og upplýsingamiðlun, mun hafa víðtæk áhrif á mannlegt samfélag. Sjóndeildarhringur einstaklinga og athafnasvið víkka; markaðir og viðfangsefni fyrirtækja þenjast út; í samskiptum þjóða í millum verða til ný svið viðskipta, samstarfs og menningartengsla.``

Síðar sagði: ,,Ríkisstjórn Íslands hefur því mótað stefnu stjórnvalda í málefnum upplýsingasamfélagsins. Með slíkri stefnumótun er leitast við að tryggja öllum landsmönnum fullan og jafnan aðgang að þeim nýjungum og þeim valkostum sem til boða munu standa.``

Síðan þetta var sagt, virðulegi forseti, eru liðin rúm sjö ár. Föstudaginn 6. febrúar sl. samþykkti hæstv. ríkisstjórn nýja stefnu um upplýsingasamfélagið. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

,,Leiðarljós hennar`` --- þ.e. stefnunnar --- ,,verða einstaklingurinn, tækifæri hans og velferð í samfélaginu og er yfirskrift stefnunnar ,,Auðlindir í allra þágu``. Í stefnunni segir m.a. að tryggja verði aðgang fólks og fyrirtækja að traustu háhraðaneti á samkeppnishæfu verði.``

Virðulegi forseti. Um leið og ég vitna í þessar samþykktir hæstv. ríkisstjórnar vil ég spyrja hæstv. forsrh. út í það hvort auðlindirnar í allra þágu eigi að vera fyrir landsmenn alla eða bara hluta þeirra. Landssíminn hefur nefnilega ekki viljað bjóða íbúum minni byggðarlaga en þeirra sem hafa 500 íbúa eða færri upp á sítengingu gegnum ADSL eða annað slíkt. Þess vegna spyr ég hæstv. forsrh.: Felast í þessari ágætu samþykkt ríkisstjórnarinnar um upplýsingasamfélagið einhver skilaboð til Landssíma Íslands eða Símans, eins og hann heitir nú, að koma á ADSL-tengingu í öllum byggðarlögum landsins?