Orion-þotur

Mánudaginn 16. febrúar 2004, kl. 15:15:21 (4233)

2004-02-16 15:15:21# 130. lþ. 64.1 fundur 323#B Orion-þotur# (óundirbúin fsp.), RG
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 130. lþ.

[15:15]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Smáfrétt í Morgunblaðinu um helgina flutti stórmerkileg tíðindi, að engar Orion-eftirlitsvélar hefðu verið hér síðustu 15 daga og að vafi léki á hvort eða hvenær önnur flugsveit yrði send til landsins.

Í tilefni af skilaboðum frá Washington síðasta vor, um að leggja niður loftvarnir á Íslandi, sagði hæstv. forsrh. í stefnuræðu, með leyfi forseta:

,,Eftir bréfaskipti milli mín og forseta Bandaríkjanna, viðræður við öryggisráðgjafa hans og beina íhlutun forsetans sjálfs eru varnarmálin í eðlilegum farvegi á ný. Það þýðir að þau verða leyst sameiginlega en ekki afgreidd einhliða sem hefði eyðilagt grundvöll varnarsamningsins.``

Ef Bandaríkjamenn hætta með eftirlitsvélar hér má túlka það svo að þeir líti ekki lengur á Ísland sem hluta af varnarsvæði sínu og að Ísland hafi ekki lengur þýðingu. Það hefur haft sérstakan tilgang og verið hreint bandarískt hagsmunamál að hafa eftirlitsvélar staðsettar á Íslandi. Hið sama virðist ekki hafa gilt um þoturnar. Í þessu hefur falist samningsstaða fyrir Ísland að mínu mati. Ef eftirlitsvélarnar fara veikist sú samningsstaða.

Það er búið að flytja mörk varnarsvæðis Bandaríkjanna heim að strönd þeirra og Kanada. Áður voru Atlantshaf og Ísland innan varnarsvæðisins. Herstöðin á Íslandi hefur verið flutt undir Evrópustoð Bandaríkjahers í Stuttgart. Umræður munu í gangi um varnarsamninginn en virðast ekkert þokast. Því er það undrunarefni ef þessi frétt á við rök að styðjast.

Ég spyr því hæstv. utanrrh. um hver skýring hans er á þessum fréttum, hvort Bandaríkjamenn séu, þrátt fyrir yfirlýsingar um annað, að draga úr vörnum hér og hver viðbrögð Íslendinga verði.