Loðnuveiðar

Mánudaginn 16. febrúar 2004, kl. 15:24:16 (4239)

2004-02-16 15:24:16# 130. lþ. 64.1 fundur 324#B loðnuveiðar# (óundirbúin fsp.), MÞH
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 130. lþ.

[15:24]

Magnús Þór Hafsteinsson:

Virðulegi forseti. Í fjölmiðlum í morgun var greint frá því að hagsmunaaðilum í sjávarútvegi hafi í gær verið greint frá því að a.m.k. 100 þús. tonnum verði bætt við loðnukvótann á yfirstandandi vertíð. Getur sjútvrh. svarað því hvort þetta er rétt? Ef svo er þá er enn eina ferðina verið að bæta við loðnukvótann. Hann er núna orðinn tæplega 800 þús. tonn en var upphaflega um 500 þús. tonn, ef ég man rétt.

Niðurstöður Hafrannsóknastofnunar benda til að þokkalega stórir þorskárgangar séu að alast upp og stórir ýsuárgangar einnig að koma inn í veiðina. Þannig er fyrirsjáanlegt að töluvert mikil næringarþörf verði fyrir hendi í íslenskum bolfiskstofnum þessa stundina. Hefur hæstv. sjútvrh. ekki áhyggjur af því að of hart sé gengið að loðnustofnunum með veiðum, stórfelldri og síaukinni kvótaaukningu, þannig að loðnan nýtist ekki sem fæða fyrir bolfiskstofna á borð við þorsk og ýsu?