Loðnuveiðar

Mánudaginn 16. febrúar 2004, kl. 15:25:24 (4240)

2004-02-16 15:25:24# 130. lþ. 64.1 fundur 324#B loðnuveiðar# (óundirbúin fsp.), sjútvrh.
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 130. lþ.

[15:25]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Við mælingar síðustu daga hefur rannsóknaskipinu Árna Friðrikssyni gengið betur að ná utan um loðnugöngurnar austan og suðaustan við landið. Þó að mælingum og útreikningum sé ekki að fullu lokið er þegar ljóst að þar verður umtalsverð viðbót við það sem áður var útgefið, það eru núna 635 þús. tonn, og ljóst að um er að ræða á annað hundrað þúsund tonn.

Vegna þess að þegar er farið að takmarkast hjá einstökum aðilum hvað þeir hafa mikinn kvóta og menn farnir að huga að því að hafa nægan kvóta fyrir hrognaloðnu og hrognatöku í lok vertíðar var talið rétt að koma því á framfæri við útvegsmenn að von væri á viðbót í kvótann þótt endanleg tala lægi ekki fyrir.

Sú mæling sem um er að ræða er gerð á þeim hluta loðnustofnsins sem núna gengur til hrygningar og mun að stærstum hluta drepast að lokinni hrygningu. Það er þess vegna ekki ástæða til að hafa áhyggjur af viðgangi loðnustofnsins, þá sérstaklega sem fæðu fyrir aðra fiskstofna, varðandi veiðar á þessum hluta nema að því er varðar þann hluta stofnsins sem nær að hrygna. Það hefur þegar verið gert ráð fyrir 400 þús. tonnum til þess og útgefinn kvóti tekur mið af því.

Hvað varðar almennt þátt loðnunnar sem fæðu fyrir bolfisk hefur á undanförnum mánuðum verið í gangi endurmat á því hjá Hafrannsóknastofnun, farið yfir það mat sem fyrr hefur verið gert og byggt hefur verið á. Það er eðlilegt að svona mat sé endurskoðað með reglulegu millibili. Því mati er ekki lokið. Því eru enn sem komið er ekki neinar nýjar upplýsingar fyrir mig til þess að byggja á skoðun mína. Við förum enn sem komið er eftir þeim niðurstöðum sem Hafrannsóknastofnun hefur komist að hvað þetta varðar.