Loðnuveiðar

Mánudaginn 16. febrúar 2004, kl. 15:30:01 (4243)

2004-02-16 15:30:01# 130. lþ. 64.1 fundur 324#B loðnuveiðar# (óundirbúin fsp.), MÞH
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 130. lþ.

[15:30]

Magnús Þór Hafsteinsson:

Virðulegi forseti. Það eru engin ný vísindi að menn viti það að loðnan spilar stóra rullu í íslenska vistkerfinu. Ég minni á það að Hafrannsóknastofnun framkvæmdi fyrir nokkrum árum mjög viðamikla rannsóknaáætlun, svokallaða fjölstofnarannsókn sem gekk yfir í mörg ár þar sem skoðaðir voru hinir ýmsu stofnar í vistkerfi hafsins umhverfis Ísland allt frá smæstu fiskum og upp í fugla. Þar liggja fyrir mikilvæg gögn.

Það er margt sem bendir til að eitthvað sé að, því að ég bendi t.d. á að kynþroskaaldur á þorski fer sífellt lækkandi. Mikið af smáþorski verður kynþroska allt of snemma. Það bendir til að þorskinum líði illa. Það er þannig hjá villtum fiskstofnum að ef þeim líður illa verða þeir kynþroska tiltölulega ungir til þess að geta náð að endurnýja sig.

Svo vil ég líka benda á það sem hæstv. sjútvrh. sagði áðan um að menn væru sumir að verða uppiskroppa með kvóta. Sennilega eiga aðrir nógan kvóta eftir og jafnvel meiri kvóta en þeir ná að veiða og þá spyr ég: Hvar er hagræðingin og sveigjanleikinn í kvótakerfinu ef ekki er hægt að beita honum núna og flytja þá kvóta frekar á milli skipa þannig að sá heildarkvóti sem búið er að ákveða náist og við förum síðan varúðarleið í þessum efnum?