Loðnuveiðar

Mánudaginn 16. febrúar 2004, kl. 15:31:11 (4244)

2004-02-16 15:31:11# 130. lþ. 64.1 fundur 324#B loðnuveiðar# (óundirbúin fsp.), sjútvrh.
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 130. lþ.

[15:31]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Eins og fram hefur komið tvisvar áður í þessu stutta fyrirspurnaformi er Hafrannsóknastofnunin að skoða sérstaklega tengsl loðnustofnsins og annarra fiskstofna út frá því hvaða hlutverki hver um sig gegnir í vistkerfinu. Sjálfsagt munu verða viðskipti með loðnukvóta á þessari vertíð eins og undanfarnar vertíðir og líklegt að þau viðskipti verði einmitt til þess að kvótinn sem útgefinn hefur verið næst að mestu eða öllu leyti. Það skiptir auðvitað miklu máli að við höfum nægt magn til þess að nýta þá vænlegu stöðu sem nú er á mörkuðum hvað varðar frysta hrognaloðnu og loðnuhrogn. Reyndar má ætla að sú vertíð sem nú stendur yfir hafi verið sérstaklega jákvæð vegna þess hve stórt hlutfall af heildarkvótanum sem veiðst hefur hefur verið unnið til manneldis, bæði fryst á Rússlandsmarkað og svo á næstu vikum sem hrognafyllt loðna og hrogn.