Skattgreiðslur erlendra starfsmanna við Kárahnjúkavirkjun

Mánudaginn 16. febrúar 2004, kl. 15:43:31 (4249)

2004-02-16 15:43:31# 130. lþ. 64.94 fundur 331#B skattgreiðslur erlendra starfsmanna við Kárahnjúkavirkjun# (umræður utan dagskrár), fjmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 130. lþ.

[15:43]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Hv. þm. beindi til mín nokkrum skriflegum spurningum um þetta mál og var svari mínu dreift í þinginu fyrir u.þ.b. viku síðan. Fyrirspurnin snerist um lagalegan ramma og skattskyldu hinna erlendu aðila sem starfa við Kárahnjúkavirkjun, bæði starfsmanna og lögaðila, eða eins og segir í 5. spurningunni í fyrirspurninni sem hv. þm. var að tala um, þá var spurt um álitamál og vandamál sem uppi eru eða upp kunna að koma að mati fjmrn. í sambandi við skattalega meðferð mála í fyrrgreindum tilvikum. Það er ekki spurt um framkvæmd, það er ekki spurt um innheimtu í þessari fyrirspurn.

Þessum spurningum var samviskulega svarað í hinu skriflega svari mínu og fullyrðing fyrirspyrjanda og málshefjandans hér í dag um að svar mitt sé rangt, er röng. Algerlega röng. Fyrirspurnirnar snúast um skattalega meðferð mála og svörin við þeim eru einföld vegna þess að hér á landi gilda einfaldar reglur um þessi mál og skattskyldan er ótvíræð að dómi fjmrn. og skattyfirvalda. Hins vegar hefur risið ágreiningur, eins og oft er, um ákveðin atriði, t.d. um tryggingagjald og í skattkerfinu eru kæruleiðir þar sem menn geta leitað annarrar niðurstöðu vilji þeir ekki una úrskurði skattyfirvaldanna. Öll slík ágreiningsmál fara í þann farveg sem lögin gera ráð fyrir.

[15:45]

Það verður jafnframt að taka tillit til þess hve stutt er síðan þessar framkvæmdir hófust og endanleg álagning vegna skatta síðasta árs hefur að sjálfsögðu ekki farið fram enn sem komið er. Komi í ljós í framkvæmdinni að vanhöld séu talin vera á skattgreiðslum grípa skattyfirvöld að sjálfsögðu til hefðbundinna úrræða, svo sem þess að áætla launagreiðanda staðgreiðslu.

Hvað varðar umkvartanir sveitarfélaga á Austurlandi um að skil á útsvarsgreiðslum hafi ekki borist eru þær ábendingar í eðlilegum farvegi innan skattkerfisins. Úr því máli verður vonandi greitt innan tíðar.

Það er mikilvægt að menn geri sér grein fyrir því að um aðila sem eru að störfum við Kárahnjúka gilda nákvæmlega sömu reglur og alls staðar annars staðar í landinu og skattskyldan er ótvíræð. Það er þess vegna mjög mikilvægt að þeir aðilar sem þar starfa, allir aðilar sem þar starfa, geri sér grein fyrir þessu og jafnframt því að undanbrögð í þessu efni verða að sjálfsögðu ekki liðin. Allt er þetta alveg skýrt og ljóst.

En hv. fyrirspyrjandi vill ekki sætta sig við þetta, að því er virðist vegna þess hve mjög honum og flokki hans er í nöp við þessar virkjunarframkvæmdir við Kárahnjúka og þann verktaka sem tekið hefur að sér stærstan hluta framkvæmdanna. Hann gaf því í skyn í síðustu viku hér í þinginu að það hlyti að vera einhver maðkur í mysunni og að ég, fjármálaráðherrann, væri að fegra stöðu mála --- eins og hann orðaði það sjálfur í viðtali --- með einhverjum hætti hvað þessar skattgreiðslur varðar.

Sá málflutningur er með ólíkindum og hann dæmir sig auðvitað sjálfur, ekki síst í ljósi þess að skattgreiðslur vegna þessara framkvæmda eru einmitt einn af þeim jákvæðu þáttum sem stjórnvöld hafa ætíð talið þessum framkvæmdum til tekna.