Skattgreiðslur erlendra starfsmanna við Kárahnjúkavirkjun

Mánudaginn 16. febrúar 2004, kl. 15:51:59 (4252)

2004-02-16 15:51:59# 130. lþ. 64.94 fundur 331#B skattgreiðslur erlendra starfsmanna við Kárahnjúkavirkjun# (umræður utan dagskrár), GAK
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 130. lþ.

[15:51]

Guðjón A. Kristjánsson:

Virðulegi forseti. Þær vekja furðu, vægast sagt, fréttirnar sem okkur berast þessa dagana þess efnis að sköttum hafi ekki verið skilað til ríkis og sveitarfélaga af vinnu starfsmanna við eitt stærsta verk Íslandssögunnar uppi hjá Kárahnjúkum. Hvernig má það annars vera að skattskil Impregilo dragist mánuðum saman, nokkuð sem engu öðru fyrirtæki mundi líðast?

Ef ég man rétt hafa erlendir starfsmenn við störf á Kárahnjúkasvæðinu verið við vinnu frá því í maí, a.m.k. risu deilur í júní við vaktafyrirkomulag. Getur virkilega átt sér stað að skattar hafi ekki verið greiddir af starfsmönnum Impregilo í tíu mánuði? Hafa skilagreinar yfir heildarlaunagreiðslur og viðeigandi sundurliðun þeirra fyrir starfsmenn heldur ekki borist? Er þarna uppi á reginfjöllum kannski að rísa eitthvert fríríki á Íslandi, fjallaríki?

Ég minnist þess ekki, virðulegi forseti, að viðlíka hafi gerst hér á landi fyrr varðandi erlenda starfsmenn og þær eru margar, spurningarnar sem vakna í þessu sambandi. Eru stjórnvöld með þessu t.d. að gefa atvinnurekendum nýtt fordæmi, eða hafa stjórnvöld hugsað sér að fara öðruvísi með skattgreiðslur af starfsmönnum þessa ítalska verktakafyrirtækis og undirverktaka þeirra en venja og reglur hafa mótað hér á landi?

Hvernig sem á málið er litið er það a.m.k. mjög undarlegt, og fróðlegt væri að vita hvernig stjórnvöld ætla að bregðast við. Það eina sem við vitum með vissu er að ríkisskattstjóri telur að af öllum starfsmönnum eigi að greiða skatta hérlendis en jafnframt er því lýst yfir af lögmanni fyrirtækisins að deila standi yfir um ýmsa þætti er varða skattamálin.

Sveitarstjóri Norður-Héraðs segist hafa kvartað við stjórnsýsluna allt upp til fjmrh. án nokkurs árangurs og telur að málið sé mjög alvarlegt. Þess vegna hljótum við að spyrja: Hvert stefnir, hæstv. fjmrh.?