Skattgreiðslur erlendra starfsmanna við Kárahnjúkavirkjun

Mánudaginn 16. febrúar 2004, kl. 16:01:19 (4256)

2004-02-16 16:01:19# 130. lþ. 64.94 fundur 331#B skattgreiðslur erlendra starfsmanna við Kárahnjúkavirkjun# (umræður utan dagskrár), GÓJ
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 130. lþ.

[16:01]

Guðjón Ólafur Jónsson:

Hæstv. forseti. Þetta er svo sem ekki í fyrsta sinn sem Vinstri hreyfingin -- grænt framboð finnur að þeirri framkvæmd sem nú stendur fyrir dyrum við Kárahnjúka. Það var svolítið merkilegt að heyra hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að hæstv. fjmrh. væri önuglyndur í þessum málum. Ég held að því sé þvert á móti öfugt farið. Það hefur alla tíð legið fyrir að vinstri grænir hafa barist gegn þessu mikla þjóðþrifamáli sem bygging Kárahnjúkavirkjunar og álvers í Reyðarfirði er. (JBjarn: Þingmaðurinn ...) Fyrst var talað um umhverfismálin. Síðan var talað um að framkvæmdin væri ómöguleg vegna þess að hún mundi valda ofþenslu í íslensku efnahagslífi. Eftir að framkvæmdir hófust var fyrst fundið að aðstæðum erlendra starfsmanna við Kárahnjúka, síðan var fundið að launakjörum þeirra og nú hefur hv. þm. uppi athugasemdir um skattgreiðslur og skattskyldu. (ÖJ: ... réttlæta ...?) (SJS: Er þetta allt í lagi?) Sé einhver misbrestur á þessu, hv. þingmenn --- þeim er greinilega mjög órótt, hv. þm. Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs (Gripið fram í.) --- ber auðvitað að átelja það.

Það gilda hins vegar ákveðnar reglur í þessum efnum, eins og fram hefur komið hjá hæstv. fjmrh. Það er ekkert sem bendir til annars en að farið verði eftir þessum reglum. (SJS: Nú?) Til þess þarf ekki atbeina hæstv. fjmrh. vegna þess að við höfum skattyfirvöld í landinu sem munu sjá um það.

Það liggur fyrir að Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hefur tapað þessu máli. Það liggur fyrir að þjóðin hefur hafnað málflutningi vinstri grænna í málinu. Síðasta óyndisúrræði hins drukknandi manns er að draga Hjörleif Guttormsson náttúrufræðing fyrir héraðsdóm, klyfjaðan gögnum til að fá þessari framkvæmd hnekkt í eitt skipti fyrir öll.

Ég var á Egilsstöðum um helgina. Ég sá uppbygginguna alls staðar. Ég sá gleðina hjá fólkinu. Ég sá bjartsýnina sem ríkti. Og ég held að nær væri fyrir hv. þm. Steingrím J. Sigfússon að taka einu sinni þátt í gleði fólksins í kjördæmi sínu í stað þess að pönkast sýknt og heilagt á ríkisstjórninni, Framsfl. og öðrum sem hafa unnið að þessu þjóðþrifamáli. (ÖJ: ... gagnrýna ...)