Skattgreiðslur erlendra starfsmanna við Kárahnjúkavirkjun

Mánudaginn 16. febrúar 2004, kl. 16:03:40 (4257)

2004-02-16 16:03:40# 130. lþ. 64.94 fundur 331#B skattgreiðslur erlendra starfsmanna við Kárahnjúkavirkjun# (umræður utan dagskrár), AtlG
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 130. lþ.

[16:03]

Atli Gíslason:

Herra forseti. Ég vona að ég hafi hér málfrelsi þó að ég hafi lagst gegn þessum mannlegu náttúruhamförum sem Kárahnjúkavirkjun er. Ég held að það hljóti að vera.

Ég verð að segja, og ætla að gera það að umtalsefni, að stjórnsýslan á Kárahnjúkum stendur ekki undir nafni. Þarna er tæplega þúsund manna byggðarlag og stjórnsýslan virðist vera í lamasessi. Hún ræður ekki við dæmið. Það snýr að sköttum, staðgreiðslu skatta og opinberra gjalda. Starfsemin byrjaði þarna í fyrravor. Það hefur varla komið króna í ríkiskassann. Ef þetta hefði verið ég og mín litla lögmannsstofa hefði fyrir löngu verið búið að áætla á mig og sýslumaður kominn á eftir mér. Það virðist eitthvað annað gilda þarna.

Það er fleira í lamasessi, t.d. löggæslan vegna þess að sýslumaður fær ekki fjárveitingar. Það er heilbrigðiseftirlitið, byggingareftirlitið og þar fram eftir götunum. Fólki eru búnar þarna aðstæður sem eru til skammar, í leku húsnæði. Það blasti við þegar fyrsta húsnæðið var reist að það var til skammar. Það er eins og stjórnsýslan kikni í hnjáliðunum þegar Impregilo er annars vegar. Fyrirtækið gengur eins langt og það hefur hugarflug til og það virðist komast upp með það. Það brýtur grundvallarskyldur sínar og grundvallarréttindi launamanna. Og það sem verra er, það blasir við að þetta ástand komist á hjá öðrum stórfyrirtækjum í atvinnurekstri. Það blasir við að við fáum starfsmannaleigur og þjóðfélag sem við viljum ekki fá. Önnur fyrirtæki geta ekki staðið undir samkeppni í þessu dæmi. Og þetta þjóðfélag sem Impregilo er að byggja upp á Kárahnjúkum viljum við alls ekki. Það er afturhvarf til fortíðar, fyrstu ára 20. aldarinnar. Við viljum það ekki, og allra síst launamenn.