Skattgreiðslur erlendra starfsmanna við Kárahnjúkavirkjun

Mánudaginn 16. febrúar 2004, kl. 16:05:41 (4258)

2004-02-16 16:05:41# 130. lþ. 64.94 fundur 331#B skattgreiðslur erlendra starfsmanna við Kárahnjúkavirkjun# (umræður utan dagskrár), KÓ
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 130. lþ.

[16:05]

Kjartan Ólafsson:

Herra forseti. Ég skil mætavel að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon skuli vilja hugsa og ræða um alla þá fjármuni sem berast munu til sveitarfélaganna á Austurlandi vegna framkvæmdanna, nú við Kárahnjúkavirkjun og síðar við byggingu álversins í Reyðarfirði.

Fjmrh. hefur nú þegar gert skilmerkilega grein fyrir skattskyldu erlendu aðilanna og þess vegna er óþarfi að eyða fleiri orðum að því í sjálfu sér úr þessum ræðustól. Hitt er að það voru rök okkar fyrir virkjun við Kárahnjúka að það mundi hafa gríðarleg áhrif á atvinnulífið á Austurlandi annars vegar, og hins vegar munu virkjunin og álverið skila góðum arði til þjóðarbúsins til framtíðar litið.

Ánægjulegu fréttirnar í dag, ef við förum að þeim þætti, eru þær m.a. að nú hefur álverð farið hækkandi á heimsmarkaði og ekki verið hærra sl. fjögur ár. Það hefur ekki verið hærra sl. fjögur ár en einmitt nú samkvæmt fréttum í dag. Þessi hækkun skapast m.a. af auknum efnahagsbata í Bandaríkjunum og síðan af því að álútflutningur frá Kína sem menn óttuðust að yrði mikill hefur dvínað verulega og virðist ekki ætla að verða sá sem menn óttuðust. Þess vegna, herra forseti, má segja að forsendur fyrir þessari framkvæmd hafi styrkst verulega, og því ber að fagna hér í dag. Ég efa ekki að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon muni hafa áhuga og jafnvel áhyggjur þegar til þess kemur að nýta þá fjármuni til handa íslensku þjóðinni sem henni hlotnast af þessum framkvæmdum.