Siglingavernd

Mánudaginn 16. febrúar 2004, kl. 16:12:30 (4261)

2004-02-16 16:12:30# 130. lþ. 64.2 fundur 569. mál: #A siglingavernd# frv., GAK
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 130. lþ.

[16:12]

Guðjón A. Kristjánsson:

Virðulegi forseti. Þessu máli var hér um bil lokið við umræðu hér fyrir nokkru en það eru samt nokkur atriði sem rétt er að vekja athygli á úr því að tími er til. Það hefur einnig verið fjallað um málið í blöðum síðan við ræddum það hér, m.a. var frétt í Morgunblaðinu frá Vestmannaeyjahöfn. Talsverðar umræður voru um þann kostnað sem fylgdi þeirri lagasetningu sem hér er verið að leggja til og innleiðingu SOLAS-reglnanna, um öryggi skipa. Verið er að útfæra þær núna til hafna og hafnarsvæða og líka til útgerða og trúnaðar- og öryggisfulltrúa útgerða og öryggisfulltrúa hafna, ásamt nýju heiti á öryggisfulltrúum skipa. Til viðbótar eru síðan víðtækari reglur og ákvæði um það vald sem skipstjóri hefur og þeir menn sem hann ætlar með sér til að gegna því hlutverki sem felst í þessu frv.

Það er ekki annað að sjá, virðulegi forseti, þegar málið er skoðað nánar en að kostnaður sem fylgir því sem hér er lagt upp með varðandi hafnirnar geti hlaupið á hundruðum milljóna króna. Kostnaðurinn sem Vestmannaeyjahöfn áætlar er, ef ég man rétt úr þessari grein, 20 milljónir samkvæmt fjárhagsáætlun til að hefja þetta. Auk þess er talað um að loka þurfi hafnarsvæðinu að stórum hluta, setja upp eftirlitsmyndavélar og sérstaka gæsluvakt fyrir skip. Það er jú þannig að Vestmannaeyjahöfn er endastöð fyrir skip sem fara til meginlands Evrópu. Það er líka þannig í fleiri höfnum við landið að skip koma þar við og eru að koma ýmist frá öðrum löndum í hafnirnar eða fara þaðan með ákveðna farma.

Mér sýnist, virðulegi forseti, að það sé full ástæða til að huga betur að kostnaðarliðum frv. sem hv. þm. Halldór Blöndal fór gaumgæfilega yfir. Ég held að áhyggjur hv. þm. Halldórs Blöndals, þegar hann ræddi um þann kostnað sem þessu gæti fylgt, eigi fyllsta rétt á sér. Mér sýnist að þegar litið er á þá kostnaðarliði sem hafnirnar munu taka á sig hlaupi kostnaðurinn á hundruðum milljóna yfir landið.

[16:15]

Í fyrsta lagi við að stofna til þeirra öryggissvæða og þess eftirlits sem ætlað er samkvæmt viðbótunum við SOLAS-reglurnar. Í annan stað er gert ráð fyrir talsverðum kostnaði við þjálfun og útfærslu skipsáhafna. Ég fæ ekki betur séð, virðulegi forseti, þó það sé ekki sagt beinum orðum, en ætlast sé til þess að skipshafnir hafi vopnabúr að grípa til, ef lesið er í reglurnar sem við erum að innleiða, og til þess þurfa menn þjálfun og annað slíkt. Í fskj. II með frv., um hlutverk ríkislögreglustjóra, segir m.a., með leyfi forseta:

,,Hlutverk ríkislögreglustjóra er að vera umsagnaraðili um áhættumat og verndaráætlun, auk þess að kanna feril einstaklinga sem gegna hlutverki við skipa- og hafnavernd.``

Það er sem sagt verið að tala um hvort hægt sé að treysta mönnum til þess eftirlits sem þeim er ætlað, m.a. vopnaburð. Það kemur líka fram, virðulegi forseti, að ríkislögreglustjóri telur sig þurfa 23 millj. kr. til kaupa á vopnum og búnaði fyrir lögregluna og Landhelgisgæslan telur sig þurfa 9 millj. kr., þar af 4 millj. kr. vegna kaupa á vopnum og skotheldum vestum fyrir átta manns í áhöfn hvers varðskips. Tollstjórinn er með ákveðnar upphæðir. Siglingastofnun er með 10 millj. kr. í fjáraukalögum 2003 og 11 millj. kr. á fjárlögum þessa árs. Það er því alveg ljóst, virðulegi forseti, að við erum að tala um mikinn kostnað og allt annað umhverfi fyrir Íslendinga á komandi árum í mörgum höfnum landsins en verið hefur, því samkvæmt tillögunum verður höfnunum meira og minna lokað og aðgengi að þeim takmarkað. Aðgengi að skipum verður einnig takmarkað því ætlast er til að skipshöfn hafi sérstakt eftirlit með skipi sínu og sett sé á sérstök vakt um það.

Virðulegi forseti. Víða úti um land hafa hafnir hingað til verið algerlega opnar þó það eigi kannski ekki við um aðstöðuna í Sundahöfn að því er varðar farskipin. Þar af leiðandi sýnist mér ekki óvarlegt að áætla að kostnaður samfara þessu hlaupi á hundruðum milljóna og mér sýnist að hafnirnar muni bera það. Þær geta hins vegar hugsanlega tekið það til baka í einhverjum gjöldum á skip sem nýta hafnaraðstöðuna, en eftir sem áður er kostnaðurinn að leggjast á atvinnugreinina, flutningana, flutningastarfsemina, farþegana og í farmiðum ef því er að skipta. Við erum því að tala um mál sem skiptir miklu máli og kannski meira máli en virðist í fyrstu þegar maður lítur á frv.

Ég vil vekja athygli á því, virðulegi forseti, þegar verið er að tala um áhættusvæði og skilgreiningu þeirra, um lokaðan aðgang og um svokölluð vástig, en ríkislögreglustjóri ákveður í samræmi við Siglingastofnun hvenær vástig kemur til, þá eiga menn að vera viðbúnir á viðkomandi svæðum eða viðkomandi skipum, í viðkomandi hafnaraðstöðu eða viðkomandi útgerðaraðilar viðbúnir að taka þátt og bregðast við samkvæmt ákvörðunum um vástig.

Þegar þetta er skoðað, virðulegi forseti, kemur í ljós að það þarf að þjálfa mannskap til þessara verka. Það þarf að veita þeim mannskap heimild til að hafa jafnvel vopn undir höndum, annaðhvort um borð í skipi eða innan hafnarsvæða, því ekki eru menn ríkislögreglustjóra tiltækir hvar sem er og mönnum ber að bregðast við samkvæmt áður skipulögðu viðbragðsferli.

Þetta vildi ég draga fram, virðulegi forseti, og vekja athygli á því að frv. þarf mikillar og nákvæmrar skoðunar við hvernig með á að fara. Það er hins vegar alveg ljóst að við erum fyrst og fremst að tala um það sem snýr að farþegaskipum og vöruflutningaskipum en ekki fiskiskipum og við erum að tala um viðbrögð sem gætu dugað gegn hryðjuverkaaðgerðum. Í því sambandi erum við að tala um þjálfun fólks til vopnaburðar, að heimila fólki að bera vopn eða nýta þau undir vissum kringumstæðum, sem fylgir auðvitað mikil ábyrgð. Kostnaðurinn samfara frv. er því mjög vanmetinn að mínu viti eins og umræðan fór fram.