Símenntunarmiðstöðvar

Þriðjudaginn 17. febrúar 2004, kl. 13:44:35 (4282)

2004-02-17 13:44:35# 130. lþ. 65.94 fundur 335#B símenntunarmiðstöðvar# (umræður utan dagskrár), ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 130. lþ.

[13:44]

Þuríður Backman:

Hæstv. forseti. Framtíð okkar byggir að miklu leyti á menntun þjóðarinnar. Við eigum í harðnandi samkeppni við erlenda markaði og til að bregðast við breyttri heimsmynd og auka samkeppnishæfni okkar er menntun lykilatriði. Krafa um frekara nám hefur því aukist á hinum almenna vinnumarkaði. Símenntunarmiðstöðvarnar koma að hluta til á móts við menntunarþörf einstaklinga og atvinnulífsins vítt og breitt um landið. Þær hafa tekið til starfa ein af annarri og þróast hver með sínum hætti eftir því sem áhugi og aðstæður hafa leyft á hverjum stað í ljósi þess að engin formleg skilgreining er til á hlutverki þessarar starfsemi innan menntakerfisins, þ.e. það er enginn lagarammi.

Símenntunarmiðstöðvarnar eru reknar sem sjálfseignarstofnanir og fá m.a. framlög af fjárlögum hvers árs. Rekstrarsamningar, þ.e. samningar um ákveðin fjárframlög hafa ekki verið gerðir við símenntunarmiðstöðvarnar og búa þær því við mikið rekstraróöryggi sem kemur niður á skipulagi og uppbyggingu náms og námsframboðs til lengri tíma. Þar sem símenntunarmiðstöðvarnar eru ekki með skilgreint hlutverk innan menntakerfisins hafa þær heldur ekki fengið stofnframlög eins og skólar innan kerfisins. Símenntunarmiðstöðvarnar hafa gegnt mikilvægu hlutverki í miðlun háskólamenntunar og fjarnáms. Framlög til háskólanámsins hafa ekki verið nægileg til að mæta útlögðum kostnaði og hefur háskólanámið verið að hluta fjármagnað með námskeiðsgjöldum nemenda í öðru námi. Þessi tilfærsla getur ekki gengið til lengdar. Námskeiðsgjöldin eiga ekki að vera hærri en sem nemur kostnaði við námskeiðin sjálf og eiga ekki að brúa þarna bilið og vera hluti af háskólanámi.

Herra forseti. Það er mikilvægt að hæstv. menntmrh. bæti stöðu símenntunarmiðstöðvanna og af þessu tilefni er rétt að hvetja hæstv. ráðherra til að beita sér fyrir tilfærslu eða flutningi þeirra ríkisstofnana sem talað hefur verið um að koma inn í húsnæði háskólanámsseturs FNA á Egilsstöðum. Eins og er virðist samkomulagið um uppbyggingu háskólanámssetursins vera í lausu lofti.