Símenntunarmiðstöðvar

Þriðjudaginn 17. febrúar 2004, kl. 13:56:02 (4287)

2004-02-17 13:56:02# 130. lþ. 65.94 fundur 335#B símenntunarmiðstöðvar# (umræður utan dagskrár), HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 130. lþ.

[13:56]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Ég vil lýsa sérstakri ánægju með þá umræðu sem hér fer fram um símenntunarstöðvar. Í rauninni snýst umræðan um fimmta skólastigið á Íslandi. Þau fjögur skólastig sem hér hafa verið rekin í íslensku menntakerfi allt frá leikskóla upp í háskóla, má segja, hafa verið skipulögð af opinberum aðilum, ekki síst ríkinu. En fimmta skólastigið, símenntun, hefur sprottið að frumkvæði atvinnulífs, sveitarfélaga og dugmikilla einstaklinga á einstökum svæðum vegna þess að þörfin er og hefur verið til staðar, enda, eins og komið hefur fram í umræðunni, er liðin sú tíð að einstaklingar ljúki prófi í skóla og hafi þar með náð sér í menntun fyrir alla ævina, það er ekki svo. Þess vegna er símenntun afskaplega mikilvæg og snýst í rauninni um það hvort við ætlum að standa okkur í samkeppni við aðrar þjóðir og um samkeppnisstöðu fyrirtækja.

Slíkur hefur krafturinn verið í þessu, eins og komið hefur fram í umræðunni, að staða símenntunar er nokkuð á sveimi. Það má segja að það sé jákvætt vegna þess að krafturinn hefur verið mikill hjá atvinnulífi, einstaklingum og sveitarfélögum og er þess vegna mjög mikilvægt að fram fari stefnumörkun. Ég vil lýsa sérstakri ánægju með yfirlýsingu hæstv. menntmrh., að setja af stað starfshóp hvað þetta varðar, því stefnumörkun þarf sannarlega að eiga sér stað og ég vænti mikils af þeirri vinnu. Við þurfum að svara spurningunum: Hvar á að vista símenntunarstöðvar? Á að vista þær hjá ríkinu, sveitarfélögum, atvinnulífinu eða einkageiranum? Hvernig á að haga til með greiðslur, gæði, tengsl við háskóla, fjarkennslu og þar fram eftir götunum?

Eitt er þó ljóst, þær verða allar að standa jafnfætis hvað varðar greiðslur úr ríkissjóði en þar hefur verið örlítill misbrestur á, e.t.v. vegna þess að stefnumörkunin hefur fram til þessa ekki verið skýr.