Innheimtulög

Þriðjudaginn 17. febrúar 2004, kl. 16:00:13 (4316)

2004-02-17 16:00:13# 130. lþ. 65.10 fundur 223. mál: #A innheimtulög# frv., Flm. JóhS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 130. lþ.

[16:00]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til innheimtulaga sem ég flyt ásamt hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni, Bryndísi Hlöðversdóttur og Ágústi Ólafi Ágústssyni.

Markmiðið með þessu frumvarpi er að settar verði ákveðnar meginreglur um innheimtu til hagsbóta fyrir neytendur, m.a. um góða innheimtuhætti. Þá er frumvarpinu ætlað að draga úr óeðlilegum kostnaði skuldara af innheimtuaðgerðum á frumstigi, þ.e. áður en til innheimtu á grundvelli réttarfarslaga kemur. Slík löggjöf er vel þekkt hjá flestum nágrannaþjóðum okkar, m.a. á Norðurlöndum.

Neytendasamtökin hér á landi hafa margoft farið fram á að sett yrðu lög um innheimtu. Með réttu telja þau að staða skuldara hér á landi sé afar veik og innheimtuaðilar geti hagað sér eins og þeir vilja við gjaldtöku af þeim sem lenda í fjárhagserfiðleikum og vanskilum. Hér er því um að ræða frumvarp sem kveður á um mjög mikilvæga löggjöf fyrir neytendur.

Virðulegur forseti. Það er ástæða til að rifja aðeins upp forsögu þessa máls. Frumvarp sama efnis var lagt fram á 127. og 128. löggjafarþingi en var ekki afgreitt úr nefnd. Þá lagði viðskiptaráðherra fram sambærilegt frumvarp á 122. og 123. löggjafarþingi. Það náði ekki fram að ganga, m.a. vegna ágreinings stjórnarflokkanna um málið. Deilurnar stóðu aðallega um hvernig háttað skyldi ákvæði um hámarksfjárhæð innheimtukostnaðar.

Í frv. hæstv. viðskrh. var lagt til að viðskrh. gæti ákveðið hámarksfjárhæð innheimtukostnaðar, m.a. þóknunar sem heimilt er að krefja skuldara um samkvæmt lögunum. Einnig voru deilur milli stjórnarflokkanna um hvernig leiðbeinandi fyrirmælum skyldi háttað varðandi endurgjald sem lögmönnum væri hæfilegt að áskilja umbjóðendum sínum. Sú grein gerði m.a. ráð fyrir að dómsmrh. skyldi að fenginni umsögn Lögmannafélags Íslands gefa út leiðbeiningar handa lögmönnum um endurgjald sem þeim er hæfilegt að áskilja umbjóðendum sínum úr hendi skuldara vegna kostnaðar af innheimtu peningakröfu. Um var að ræða heimildarákvæði og var lögð áhersla á það á þessum árum, á 127., 128., 122. og 123. löggjafarþingi, í þeim frumvörpum sem þá voru til umræðu, að þetta yrði skylda en ekki heimild. Enda er það svo, herra forseti, að þó að dómsmrh. hafi þessa heimild í lögunum um lögmenn þá hefur hún aldrei verið nýtt, að því er ég best veit. Ég hef kynnt mér málið, m.a. á síðasta þingi og hef ekki heyrt að í því efni sé um neinar breytingar að ræða.

Virðulegi forseti. Miðað við þá forsögu sem ég hef rakið er full ástæða til að ætla að þetta frv. hafi meiri hluta á þingi, þ.e. ef framsóknarmenn fara að því sem þeirra maður í ríkisstjórn, Finnur Ingólfsson, þáverandi ráðherra, setti fram varðandi setningu innheimtulaga.

Þetta frv. er að meginuppistöðu frv. sem viðskrh. lagði fram en þó hefur verið tekið tillit til ýmissa umsagna og ábendinga sem fram hafa komið í þessu efni.

Í frumvarpi ráðherra á sínum tíma sagði m.a. í greinargerð, með leyfi forseta:

,,Markmiðið með frumvarpinu er einkum að setja ákveðnar meginreglur um innheimtu til hagsbóta fyrir neytendur, m.a. ákvæði um góða innheimtuhætti og innheimtuviðvörun, og draga úr óeðlilegum kostnaði skuldara vegna innheimtuaðgerða á frumstigi áður en til innheimtu á grundvelli réttarfarslaga kemur, t.d. með því að takmarka í reglugerð hámarksfjárhæð innheimtukostnaðar, m.a. þóknunar, sem heimilt er að krefja hann um.``

Ég ætla að skjóta inn í að þetta er deiluefni sem upp kom á milli stjórnarflokkanna á sínum tíma. En áfram segir, með leyfi forseta, í greinargerð með frv. ráðherra:

,,Með viðvörun væri stefnt að því að skuldarar almennt ættu kost á að greiða skuld sína innan stutts frests með lágmarkskostnaði er grundvallaðist á ákvörðun í reglugerð áður en til innheimtuaðgerða yrði gripið. Lánardrottinn mundi væntanlega á þessu stigi innheimtu sjálfur senda skuldara viðvörun. Hann gæti þó leitað aðstoðar lögmanns eða annars innheimtuaðila en bæri þá sjálfur ábyrgð á hugsanlegri greiðslu til hans umfram lágmarkskostnað.``

Í þessu frv. er viðskrh. gert að ákveða hámarksfjárhæð innheimtukostnaðar í reglugerð en í frv. viðskrh. var um heimild að ræða eins og áður sagði.

Ég tel ekki ástæðu, virðulegi forseti, til að fara nánar yfir þetta mál. Þetta hefur áður verið rætt á þingi. Ég legg því til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. efh.- og viðskn. og 2. umr.