2004-02-17 16:38:57# 130. lþ. 65.16 fundur 268. mál: #A samstarf ríkis, sveitarfélaga og ýmissa rekstraraðila í heilbrigðis-, trygginga- og félagsmálum# þál., Flm. HjÁ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 130. lþ.

[16:38]

Flm. (Hjálmar Árnason):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um formlegt samstarf ríkis, sveitarfélaga og ýmissa rekstraraðila í heilbrigðis-, trygginga- og félagsmálum sem ég flyt ásamt hv. þm. Jónínu Bjartmarz.

Þáltill. sjálf er aðeins ein málsgrein, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela félagsmálaráðherra að láta kanna möguleika þess að efna til formlegs samstarfs ríkis, sveitarfélaga og ýmissa rekstraraðila í heilbrigðis-, trygginga- og félagsmálum.``

Þetta er afskaplega skýr efnisgrein. Hugsunin á bak við hana kemur e.t.v. skýrast fram í teikningu sem fylgir þingskjalinu og er unnin af Grími Atlasyni, starfsmanni Félagsþjónustu Reykjavíkurborgar. Hér kemur fram í greinargerð að hvað varðar heilbrigðis-, trygginga- og félagsmál séu mörg grá svæði, enda afskaplega margir aðilar sem koma að slíku. Sum þessara mála heyra undir heilbrrn., önnur undir félmrn. og þriðji hlutinn undir sveitarfélögin. Síðan koma ýmsir aðilar, eins og verkalýðsfélög sem koma að ýmsum slíkum þáttum með beinum og óbeinum hætti. Það eru ýmis félagasamtök. Síðan má ekki gleyma afskaplega dugmiklum einstaklingum sem láta þessi mál til sín taka.

Með því hve margir koma stjórnsýslulega og með óformlegum hætti að þessum málaflokki dreifast kraftar afskaplega mikið. Fólk sem starfar innan þessa geira beinlínis kvartar undan því að það þurfi að ganga á milli margra aðila til að sinna tiltölulega einföldum málum.

Hugsunin með þessari þáltill. er að kanna hvort ekki kunni að vera leið til þess að efla þjónustustigið, gera það skilvirkara, steypa þessu í eina stofu, ekki stofnun, heldur kannski eina stofu sem væri staðsett innan sveitarfélaga, en byggðist síðan á samstarfssamningi milli þeirra aðila sem hér hafa verið taldir upp. Það má segja að hugsunin á bak við þetta sé sú að gerður sé nokkurs konar starfssamningur á milli þessara aðila en það sé á höndum eins aðila að sinna þjónustunni. Sá sem þjónustunnar nýtur þarf þá ekki að snúa sér til nema eins aðila sem síðan gætir hagsmuna hans gagnvart kerfinu öllu.

Ég hef rætt þetta við ýmsa aðila sem starfa í þessum geira og þeir hafa tekið mjög jákvætt í þessa hugmynd, enda má segja að hún sé ekkert mjög ný. Hún hefur verið reynd í Noregi og sumpart hérlendis með svokölluðum tilraunasveitarfélögum. Má þar nefna t.d. að sveitarfélagið Hornafjörður hefur tekið heilbrigðisþjónustuna og málefni fatlaðra í sínar hendur, notar þar samlegðaráhrifin. Eru bæði sveitarstjórnarmenn en ekki síður starfsmenn og skjólstæðingar mjög ánægðir með það fyrirkomulag og telja að þjónustustigið hafi batnað verulega.

Það má færa rök fyrir því að með slíku fyrirkomulagi, með einni svona ,,félagsstofu`` sem byggir á þjónustulund og góðu þjónustustigi, aukist þjónustan, þjónustustigið hækki, en jafnframt verði fjármunir nýttir betur. Okkur flutningsmönnum finnst vera þess virði að láta gera úttekt á þessu, láta skoða þessa þætti, og ef niðurstaðan verður eins og ég reyni nú að halda fram væri sjálfsagt að fara þessa leið.

Virðulegi forseti. Ég held að ég þurfi ekki að hafa frekari orð um þetta en leyfi mér að mælast til þess að málinu verði vísað til hv. félmn. að umræðunni lokinni.