2004-02-17 16:43:26# 130. lþ. 65.16 fundur 268. mál: #A samstarf ríkis, sveitarfélaga og ýmissa rekstraraðila í heilbrigðis-, trygginga- og félagsmálum# þál., ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 130. lþ.

[16:43]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Ég tek hér til máls til að lýsa fullum stuðningi við þessa þáltill. um formlegt samstarf ríkis, sveitarfélaga og ýmissa rekstraraðila í heilbrigðis-, trygginga- og félagsmálum.

Ég hef marglýst skoðun minni í þessum málum, svipaðri þeirri sem hér kemur fram, varðandi ýmis mál sem rædd hafa verið hér á Alþingi, og þá sérstaklega þegar fjallað hefur verið um ýmis mál sem snúa að heilbrigðisþjónustunni og mikilvægi þess að heilbrigðis- og félagsþjónustan vinni vel saman. Ég tel að það eigi að skoða mjög vandlega efni þessarar þáltill. því að ekki er allt fengið með sameiningu sveitarfélaga og því að koma verkefnum yfir á sveitarfélög til þess að ná fram betri nýtingu fjármagns. Það er hægt að ná betri þjónustu og meiru út úr fjármagninu með formlegu samstarfi eins og hér er lagt til.

[16:45]

Ég hef í þó nokkrum ræðum ítrekað að æskilegt sé að koma á samstarfi, sérstaklega félagsþjónustunnar og heilbrigðisþjónustunnar í sveitarfélögunum og verkefnið sem er í gangi í Hornafirði, sem nú er tilraunasveitarfélag, hefur gefist mjög vel. Það er til eftirbreytni og fyrirmynd sem ég tel að hægt sé að taka upp í öðrum sveitarfélögum og sníða eftir þörfum og getu sveitarfélaganna. Sveitarfélögin eru misjöfn og það er hægt að ná góðu formlegu samstarfi ríkis og sveitarfélaga um ýmis verkefni til þess að fá fram betri þjónustu þó að verkefnið sé ekki alfarið yfirfært á sveitarfélagið eða betri nýtingu náð með sameiningu. Ég legg eindregið til að þetta verði skoðað vandlega því það getur aldrei komið annað en gott út úr því að fara í þessa vinnu. Það verður aldrei annað en til hagsbóta og þá sérstaklega fyrir íbúa sveitarfélaganna.