Sýslur

Þriðjudaginn 17. febrúar 2004, kl. 16:46:42 (4323)

2004-02-17 16:46:42# 130. lþ. 65.17 fundur 269. mál: #A sýslur# þál., Flm. ÞBack (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 130. lþ.

[16:46]

Flm. (Þuríður Backman):

Herra forseti. Ég flyt till. til þál. um sýslur. Flutningsmaður ásamt mér er hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson sem sat á þingi sem varaþingmaður fyrr í vetur. Þáltill. er svohljóðandi:

,,Alþingi ályktar að fela forsætisráðherra að skipa nefnd sem hafi það verkefni að fjalla um stöðu sýslna í íslenskri löggjöf, landfræðileg mörk þeirra og hvort festa skuli þau í sessi með löggjöf. Að starfi nefndarinnar loknu leggi ráðherra málið fyrir Alþingi til upplýsinga og ákvörðunar um framtíðarstöðu sýslna.``

Herra forseti. Trúlega þykir mörgum einkennilegt að taka þetta mál upp á Alþingi en hugtakið ,,sýslur`` hefur tekið breytingum í tímanna rás. Það er nokkuð á reiki í hugum manna hvað sýsla þýðir og hvort hún sé í raun til í stjórnsýslunni í dag.

Tillaga þessi var flutt á 123. löggjafarþingi 1999 af Hjörleifi Guttormssyni en þá náðist ekki að mæla fyrir henni. Tillagan var endurflutt á 126. og 128. löggjafarþingi af sömu flutningsmönnum og endurflytja hana nú. Þau fylgiskjöl sem fylgdu tillögunni þegar hún var fyrst flutt fylgja hér einnig með.

Gerð hefur verið góð grein fyrir tillögunni þegar mælt hefur verið fyrir henni á fyrri þingum. Ég ætla því ekki að fara mjög ítarlega út í greinargerðina en vil taka fram að eftir breytingu á sveitarstjórnarlögum 1986 og aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði, með lögum nr. 92/1989, heyra sýslur í íslenskri stjórnsýslu að mestu eða öllu sögunni til. Orðið sýslumaður vísar ekki lengur til landfræðilegs umdæmis og fylgja stjórnsýsluumdæmi þeirra nú ekki þeim mörkum sem áður voru hefðbundin sýslumörk heldur miðast við mörk og heiti sveitarfélaga. Um þetta vísast til skriflegs svars dómsmálaráðherra við fyrirspurn um sýslur á 122. löggjafarþingi. Stjórnskipuleg staða einstakra sýslna er þar sögð mismunandi eftir því hvort mörk þeirra falla saman við mörk stjórnsýsluumdæmis einstaks sýslumanns.

Sýslumörk eru farin á flot í meðförum manna, eins og ég hef sagt áður. Þar er ruglað saman umdæmum sýslumanna og sýslum sem landfræðilegum einingum. Að mati flutningsmanna er full ástæða til að varpa ljósi á þetta samhengi og að Alþingi taki síðan afstöðu til stöðu sýslna framvegis. Þetta er bæði menningarsögulegt og hagnýtt viðfangsefni. Það sýnir sig að þörf er á stærri landfræðilegum einingum að vísa til en sveitarfélögum. Þótt þau fari stækkandi með sameiningu getur orðið bið á að þau fylli út í sýslurnar í landfræðilegum skilningi og með öllu óvíst að mörk yrðu hin sömu. Allt eru þetta rök fyrir því að rýna þurfi í málið af vísum mönnum.

Hæstv. forseti. Ég fékk svar frá hæstv. landbrh. nú í vetur í febrúarmánuði á þskj. 795 við fyrirspurn minni um úthlutun andvirðis beingreiðslna af 7.500 ærgildum sem birtar voru í B-deild Stjórnartíðinda 19. desember. Í Stjórnartíðindum er vísað til sýslu sem einingar þar sem hverju sauðfjársvæði er veitt ákveðin stigagjöf og sýslurnar, svo sem Gullbringu- og Kjósarsýsla og sveitarfélögin innan þeirra talin upp, Borgarfjarðarsýsla, Mýrasýsla o.s.frv. Í þessu svari og í Stjórnartíðindum er vísað til sýslumarka sem ákveðinna umdæma.

Herra forseti. Ég tel rétt að þessi þáltill. komist til hv. allshn. til umsagnar, skoðunar og afgreiðslu. Þó ekki væri nema af menningarsögulegum ástæðum tel ég rétt að skýra stöðu sýslna í stjórnsýslunni.